Teiknimyndir hafa þróast í tímans rás með undraverðum hætti. Þær eru ekki aðeins fyrir börn, og margar þeirra þykja með áhrifamestu kvikmyndum sem komið hafa fram á hvíta tjaldið. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur tók saman lista yfir tíu teiknimyndir sem hann telur bestu teiknimyndir sögunnar.
10. FANTASTIC MR. FOX – Bandaríkin, 2009
Leikstjórinn Wes Anderson hefur gert það gott í Hollywood á undanförnum árum með kvikmyndum á borð við Rushmore, The Royal Tenenbaums og The Grand Budapest Hotel. Hinn frábæri refur er þó eina teiknimyndin sem hann hefur gert. Hún ber þó augljós merki þess að vera Anderson-mynd því að myndir hans hafa ákaflega sérstakan stíl, þá sérstaklega kvikmyndatakan sem einkennist af flötum og samhverfum römmum. Hvert atriði er í raun eins og málverk. Auk þess notar hann yfirleitt sömu leikarana í sínum eins og t.d. Bill Murray, Owen Wilson og Willem Defoe sem allir koma við sögu hér. Myndin er byggð á samnefndri barnabók Roalds Dahl frá árinu 1970 og fjallar um baráttu smádýra við þrjá bændur. Dýrin eru leidd af hinum frábæra ref sem talsettur er af sjálfum George Clooney.
9. KOKAKU KIDOTAI – Japan, 1995
Flest vinsæl manga blöð enda sem annað hvort eða bæði teiknimyndaþættir og kvikmyndir. Draugurinn í skelinni er þar engin undantekning. Myndin er vísindaskáldskapur sem gerist árið 2029 í asískri stórborg sem augljóslega er byggð á Hong Kong. Sérstakt löggæsluteymi er fengið til þess að klófesta hættulegan hakkara sem kallast Puppet Master. Net-og tölvuvæðing er sérstakt þema í myndinni og hvernig fólk og tölvur sameinast í svokölluðum “skeljum” eða gervilíkömum. Draugurinn í skelinni hafði gríðarmikil áhrif út fyrir hinn þrönga heim japanskra anime teiknimynda. Mark hennar sést t.a.m. í Hollywood kvikmyndunum The Matrix, Avatar o.fl. Brátt fáum við einnig að sjá leikna endurgerð af kvikmyndinni með sjálfri Scarlett Johansson í aðalhlutverki.
8. SNOW WHITE AND THE SEVEN DWARFS – Bandaríkin, 1937
Mjallhvít
og dvergarnir sjö er fyrsta handteiknaða kvikmyndin
í fullri lengd. Hún er byggð á hinu fræga þýska ævintýri sem Grimms-bræður gáfu
út á prenti á 19. öld. Walt Disney hafði á þessum tíma gert garðinn frægan með
stuttum teiknimyndum en hann vildi færa út kvíarnar og lagði því allt í
sölurnar og veðsetti allar eigur sínar til að framleiða myndina. Menn héldu að
þetta væri hans feigðarflan en myndin sló hins vegar svo rækilega í gegn að hún
er ennþá með tekjuhæstu kvikmyndum allra tíma. Fyrir gróðann af myndinni kom
Disney upp stóru teiknimyndaveri og á næstu árum á eftir framleiddi hann
teiknimyndir á borð við Gosa, Dúmbó, Bamba og hina draumkenndu Fantasíu.
Íslendingar telja sig eiga hlut í þessu ævintýri þar sem fyrirmyndin að
Mjallhvíti Disneys gæti vel hafa verið stúlka að nafni Kristín Sölvadóttir.
7. VALHALLA – Danmörk, 1986
Teiknimyndabækurnar Goðheimar eru okkur Íslendingum að góðu kunnar. Þær hafa verið gefnar út af danska teiknaranum Peder Madsen síðan á áttunda áratug seinustu aldar en hann leikstýrði einmitt sjálfur teiknimyndinni Valhöll sem var byggð á nokkrum af bókunum. Efniviður Madsens er hin forna heiðni sem hann togar og teygir í ýmsar áttir. Í Valhöll fylgjumst við með för þrumuguðsins Þórs og föruneyti hans til Útgarða Loka eins og segir í Snorra-Eddu. Myndin var gríðarvinsæl á Norðurlöndum þegar hún kom út en fjármögnun hennar fór algerlega úr böndunum og hún er því ennþá
6. SOUTH PARK: BIGGER, LONGER & UNCUT – Bandaríkin, 1999
Hinir illa teiknuðu….. eða illa límdu þættir tvíeykisins Trey Parker og Matt Stone hófu göngu sína árið 1997 og ullu strax fjaðrafoki. Fólk var vant því að sjá hinn nokkuð djarfa húmor Simpsons fjölskyldunnar á skjánum en South Park fóru langt yfir öll velsæmismörk. Parker og Stone hafa eignast fjölmarga óvini í gegnum tíðina enda margir verið teknir fyrir í beittu háði þáttanna. Reynt hefur verið að stöðva framleiðslu þeirra eða fá þá til að milda tóninn og gera þá fjölskylduvænni. Kvikmyndin var því einhvers konar yfirlýsing Parker og Stone um að ritskoðun yrði ekki liðin. Myndin sló í gegn og var meira að segja tilnefnd til Óskarsverðlauna. Vitaskuld mættu félagarnir á rauða dregilinn í litríkum kjólum og útúrdópaðir á sýru.
5. LEGO MOVIE – Bandaríkin, 2014
Danski kubbaframleiðandinn Lego hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er orðinn stærsti leikfangaframleiðandi heims. Lego hafa fært út kvíarnar m.a. með gerð tölvuleikja og teiknimynda. Fyrsta stóra Lego kvikmyndin leit dagsins ljós á seinasta ári og fleiri eru í burðarliðnum. Lego Movie varð mjög vinsæl þá sérstaklega fyrir hraðar klippingar og ferskan húmor. Myndin lítur út fyrir að vera tekin upp með alvöru Lego-kubbum en svo er reyndar ekki heldur er hún að mestu tölvugerð. Framleiðendurnir fengu kubbahönnuði með sér í lið og aðgang að gríðarstórum tölvugagnagrunni fyrirtækisins. Allt varð að passa eins og það gerir í alvörunni. Í myndinni er tekist á um það hvort fylgja eigi leiðbeiningum eða hugsa sjálfstætt og skapa eitthvað nýtt. Flestir Lego-aðdáendur falla í annan hvorn hópinn en boðskapur myndarinnar er sá að einhvers konar millivegur sé bestur.
4. HOTARU NO HAKA – Japan, 1988
Ghibli kvikmyndaverið í Tokyo ber höfuð og herðar yfir aðra í japanskri anime teiknimyndagerð. Ein merkasta kvikmynd sem komið hefur þaðan er Gröf eldflugnanna eftir Isao Takahata. Myndin er byggð á samnefndri smásögu frá árinu 1967 og fjallar um lífsbaráttu systkinanna Seita og Setsuko undir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Þau búa í borginni Kobe sem er undir stöðugum loftárásum amerískra flugvéla. Þær varpa eldsprengjum sem valda gríðarmiklum eldsvoðum, vopn sem notað var til að valda sem mestri skelfingu. Móðir systkinanna deyr í einni slíkri árás og þau þurfa að bjarga sér sjálf. Skyldmenni afneita þeim og þau leiðast út í þjófnað til þess að reyna að komast af. Hinn mikli gagnrýnandi Roger Ebert sagði að Gröf eldflugnanna fái mann til að endurhugsa teiknimyndir sem listform. Þetta eru ekki bara skrípamyndir fyrir börn.
3. JUNGLE BOOK – Bandaríkin, 1967
Frumskógarbók breska rithöfundarins Rudyards Kipling kom út árið 1894. Saga af ungum indverskum dreng (Mowgli) sem elst upp hjá úlfum. Hann kynnist pardusnum Bakír og birninum Balla og þarf að kljást við kyrkislönguna Karúnu og tígurinn Shere Khan. Teiknimyndin er reyndar mun heilsteyptari og einfaldari saga en bókin sem er samansafn af styttri sögum. Hún er þó einstaklega vel heppnuð og er ein af allra vinsælustu teiknimyndunum sem Walt Disney framleiddi og reyndar sú seinasta en hann lést ári áður en hún var frumsýnd. Það sem stendur upp úr í myndinni er tónlistin sem er í alla staði frábær og nokkuð sérstök. Þar ber helst að nefna atriðið þegar Mowgli kynnist órangútanum Lúlla kóng sem talsettur er af jazz stjörnunni Louis Prima. Það er ekki hægt annað en að dilla sér með.
2. LA PLANÉTE SAUVAGE – Frakkland/Tékkóslóvakía, 1973
Kveikjan að gerð myndarinnar um Hina ótrúlegu planetu var innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu árið 1968. Hún er framleidd þar en leikstýrð af Frakkanum René Laloux og talsett á frönsku. Efniviðurinn var lítið þekkt frönsk vísindaskáldsaga, Oms en série frá 1957. Myndin fjallar um harða baráttu manna (oms) gegn mun stærri og tæknivæddari vera (draags). Draags halda suma oms sem gæludýr sem börnin þeirra leika sér að en þeir eiga það einnig til að ganga hart gegn þeim og drepa þá líkt og um meindýr væri að ræða. Valdajafnvægið raskast þó þegar oms ná að flýja frá heimaplánetunni Ygam til nálægs tungls, eða hinnar ótrúlegu plánetu. Myndin er skotin og klippt í hinum svokallaða stop-motion stíl. Hún er ákaflega falleg en jafnframt framandleg og sum atriðin eru mjög torskilin.
1. ANIMAL FARM – Bretland, 1954
Dýrabær var fyrsta breska teiknimyndin í fullri lengd, gerð eftir hinni frægu bók George Orwells frá árinu 1945. Myndin fjallar um það þegar húsdýr á enskum sveitabæ gera uppreisn gegn bóndanum og taka sjálf stjórnina. Þetta er þó auðvitað allegóría af Októberbyltingunni í Rússlandi árið 1917 og fyrstu áratugum Sovétríkjanna. Byltingin er leidd af svínunum Old Major (Marx), Snowball (Trotsky) og Napoleon (Stalín) og sýnir hvernig þau verða engu betri en bóndinn sjálfur (keisarinn). Lengi vel var fjármögnun myndarinnar haldið leyndri, meira að segja fyrir teiknurunum sjálfum. Árið 1974 kom í ljós að CIA stóð að baki myndinni enda hentaði sagan vel í áróðursvél þeirra í kalda stríðinu. Myndin er undarleg blanda af Disney-legum teikningum og napurlegu en jafnframt kraftmiklu pólitísku myndmáli. Svo er hún lystilega talsett af Maurice Denham sem talaði fyrir öll dýr og menn.