Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að Ísland hefði getað orðið gjaldþrota ef landið hefði gengið í Evrópusambandið (ESB). Hann telur að Ísland hefði getað lent í sama langvinna efnahaghruninu Grikkland eða í sama opinbera skuldaklafa og Írland lenti í þegar írska ríkið tók yfir slæmar skuldir írskra einkabanka, ef aðildarumsókn Íslands hefði leitt til inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram í viðtali við Sigmund Davíð í vefmiðlinum Politico.eu sem birt var í dag. Þar segir forsætisráðherrann einnig í raun ómögulegt að Ísland muni ganga í Evrópusambandið í bráð.
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sótti um aðild að sambandinu árið 2009 en viðræðurnar voru settar á ís undir lok valdatíma hennar. Núverandi ríkisstjórn hætti síðan viðræðunum alfarið og hefur lýst því skýrt yfir að hún hafi engan áhuga á inngöngu. Óljóst er hins vegar hvort umsóknin hafi formlega verið dregin til baka.
Sigmundur Davíð segir við Politico að hann sé nokkuð viss um að efnahagsbati Íslands hefði ekki orðið ef landið væri hluti af Evrópusambandinu. „Við hefðum meira að segja getað farið í hina áttina og orðið gjaldþrota ríki[...]Ef allar þessa skuldir hefðu verið í evrum, og við hefðum þurft að gera það sama og Írar og Grikkir, og taka ábyrgð á skuldum föllnu bankanna okkar. Það hefði verið skelfilegt fyrir okkur efnahagslega“. Þess í stað sé Ísland ein helsta velgengnissaga eftirhrunsáranna í heiminum.
Sigmundur Davíð segir að helstu röksemdarfærslan fyrir aðildarumsókninni, þegar hún var lögð fram árið 2009, hafi verið sú að Ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið vegna efnahagslegra ástæðna. Aðild hafi alltaf verið sett um sem efnahagslega mikilvæg spurning. „Nú finnst fólki það vera búið að fá svar við henni. Íslenskur efnahaur hefur gengið mun betur en efnahagur Evrópusambandsins[...]Við höfum séð mikinn bata á síðustu tveimur árum á meðan að Evrópusambandið stendur enn frammi fyrir vandræðum og áframhaldandi kreppu“.
Hann segir að strax þegar slaknað hafi á upphaflegu örvæntingu þjóðarinnar vegna efnahagsvandræðanna hafi blasað við að Ísland sé í góðum málum eitt og sér. Landið sé hluti af EES-svæðinu og það sé eins nálægt Evrópusambandinu og Ísland vilji vera. „Ég held að það sé mjög ólíklegt, og raunar ómögulegt, að Ísland mun ganga í sambandið í bráð,“ segir Sigmundur Davíð við Politico.