Velta vegna viðskipta með hlutabréf í Kauphöll Íslands í októbermánuði var 86 prósent meiri en í sama mánuði í fyrra. Alls voru heildarviðskipti í síðasta mánuði 57.507 milljónir króna, eða 2,6 milljarðar króna á dag að meðaltali. Þau voru 49 prósent meiri en í septembermánuði. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti októbermánaðar sem Kauphöll Íslands birti fyrr í dag. þar kemur einnig fram að samanlagt virði félaga sem skráð eru á Íslandi er komið yfir eitt þúsund milljarða króna.
Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 9,9 prósent í síðasta mánuði og stendur nú í 1.846 stigum. Hún hefur hækkað um rúmlega 40 prósent það sem af er ári.
Í lok október voru 20 félög skrá á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi, þar af voru 15 félög skrá á Aðalmarkaðinn. Ein félag var nýskráð í síðasta mánuði, Síminn hf. Skráning félagsins hefur verið mikið til umræðu vegna þess að tíu prósent hlutur í því var seldur fyrir útboð, annars vegar til hóps á vegum stjórnenda Símans, og hins vegar til viðskiptavina í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum hjá Arion banka. Báðir hóparnir greiddu umtalsvert lægra verð fyrir hluti en greitt var í útboðinu, en gengust þess í stað undir söluhömlur.
Alls voru viðskipti með bréf í Símanum um 5,4 milljarðar króna í október, en viðskipti með bréfin hófust um miðjan mánuðinn. Mest voru viðskipti með bréf í Icelandair, alls 10,4 milljarðar króna.
Heildarvirði allra skráðra félaga á Íslandi er nú komið yfir þúsund milljarða króna, en samanlagt nam það 1.038 milljörðum króna um síðustu mánaðarmót. Samanlagt virði þeirra hafði verið 936 milljarðar króna í september.
Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina í viðskiptum með hlutabréf í síðasta mánuði, eða 24,5 prósent. Landsbankinn er hins vegar með mestu hlutdeildina á árinu, eða 27,5 prósent.