A-hluti Reykjavíkurborgar verður rekin með 13,4 milljarða króna tapi á árinu 2015 samkvæmt útkomuspá sem kynnt var í borgarstjórn í dag. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Stærsta ástæða þess að hallinn er jafn hár og raun ber vitni er sú að breytingar á lífeyrisskuldbindingum á árinu 2015 voru 14 milljarðar króna. Þær munu ekki vera nærri jafn háar á næstu árum og eru áætlaðar fjórir milljarðar króna á árinu 2016.
Samstæða borgarinnar, A- og B-hluti hennar, verður rekin með 3,5 milljarða króna tapi. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.
Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem lagt var fram í borgarstjórn í dag.
Áætla afgang á næsta ári
Þar segir einnig að reka eigi A-hluta rekstur Reykjavíkurborgar með 567 milljóna króna afgangi á árinu 2016, samkvæmt fjárhagsáætlun sem lögð var fram í borgarstjórn í dag. Samstæða Reykjavíkurborgar, A- og B-hluti, á að vera rekin með 8,1 milljarða króna afgangi á næsta ári.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna þessa segir að markmið áætlunarinnar sé að gera grunnrekstur borgarinnar sjálfbæran. Áætlunin taki mið af því að árinu 2015 tók afkoman að versna talsvert í kjölfar mikilla launahækkana og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem verða gríðarháar á þessu ári. „Ein ástæðan fyrir vaxandi rekstrarhalla borgarinnar og annarra sveitarfélaga má rekja til fjárhagssamskipta þeirra við ríkið. Sveitarfélögin telja og hafa ályktað þar að lútandi að verulega vanti upp á fjármuni frá ríkinu til að tryggja þjónustu við fatlað fólk og þjónustu við eldri borgara á hjúkrunarheimilum. Þá hefur ríkið rukkað sveitarfélögin um tryggingargjald umfram það sem atvinnustig í landinu kallar á. Hallinn á málaflokki fatlaðs fólks nemur um 1.100 milljónum á þessu ári, hallinn á hjúkrunarheimilunum nemur 288 milljónum og tryggingagjaldið umfram það sem eðlilegt getur talist tæpum 800 milljónum. Alls gerir þetta um 2,1 milljarð króna,“ segir í tilkynningunni.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það megi segja að borgin sé að ná tökum á ástandinu. „Hækkandi launaliðir, lífeyrisskuldbindingar og fjárhagsleg samskipti við ríkið hafa kallað á sterk viðbrögð sveitarfélaganna allra á undanförnum misserum. Um leið erum við setja fram áætlun um hvernig bregðast skuli við hækkandi útgjöldum og minni tekjum en áætlað var. Þó munu skattar haldast óbreyttir og þegar allt er talið verður áfram hagstæðast fyrir fjölskyldur að búa og nýta þjónustu í Reykjavík.“