Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um innleiðingu opinberra mótframlaga við fyrstu húsnæðiskaup. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessarra mótframlaga gæti numið um tveimur milljörðum króna á fimm ára tímabili.
Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að úrræði eigi að koma þeim til hjálpar "sem stefna að sínum fyrstu fasteignakaupum sem og þeim sem hafa af einhverjum sökum misst húsnæði í sinni eigu og stefna inn á fasteignamarkaðinn að nýju. Ekki skipti máli hvort kaupendur sem hygðust nýta sér úrræðið væru þátttakendur á vinnumarkaði eða ekki og því gæti þessi leið nýst þeim sem ekki geta nýtt séreignarsparnað til húsnæðiskaupa".
Þingmennirnir fjórir sem leggja fram tillöguna eru Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Vilja byggja á breska kerfinu
Þingmennirnir vilja byggja kerfið upp á húsnæðissparnaðarleið sem breska ríkisstjórnin kynnti í mars síðastliðnum og á að koma til framkvæmda í næsta mánuði. Í greinargerð þeirra segir: "Grunnhugmynd bresku leiðarinnar er að aðstoða ungt fólk við sín fyrstu íbúðarkaup með opinberu mótframlagi við sparnað. Frá og með 1. desember 2015 munu einstaklingar 16 ára og eldri, sem aldrei hafa átt hlut í fasteign, geta stofnað húsnæðissparnaðarreikning sem lýtur sérstökum skilmálum í þessa veru. Í upphafi býðst reikningsstofnanda að setja allt að 1.000 bresk pund (um 200.000 kr.) inn á reikninginn og mánaðarlegur sparnaður getur orðið allt að 200 pund (um 40.000 kr.). Engin neðri mörk eru skilgreind á innborgunum, heldur eru aðeins tilgreindar hámarksupphæðir.
Ríkið greiðir innstæðueigendum 25% mótframlag við uppsafnaðan sparnað að því gefnu að hann sé nýttur til kaupa á fasteign í Bretlandi. Kaupandi þarf að hafa safnað a.m.k. 1.600 pundum (um 320.000 kr.) til að öðlast rétt á mótframlagi, sem þá næmi 400 pundum (um 80.000 kr.). Mótframlagið getur í hæsta lagi numið 3.000 pundum (um 600.000 kr.), sem miðast við að einstaklingur hafi sparað 12.000 pund (um 2.400.000 kr.) áður en til fasteignakaupa kemur. Ríkisstyrkur þessi er einstaklingsbundinn og heimilt er að nýta styrk tveggja einstaklinga til kaupa á einni íbúð, standi þeir í sameiningu að sínum fyrstu íbúðarkaupum. Styrkurinn er skattfrjáls.Áætlað er að opið verði fyrir stofnun nýs reiknings af þessu tagi í fjögur ár frá og með 1. desember 2015. Eftir að reikningur hefur verið stofnaður eru hins vegar engin tímamörk á nýtingu úrræðisins".
Gæti kostað tvo milljarða á fimm árum
Þingmennirnir segja að það sé nauðsynlegt að ráðast í gerð kostnaðaráætlunar fyrir ríkissjóðs vegna verkefnisins, en að hún ætti að vera tiltölulega auðveld í framkvæmd. Bretir áætli að kostnaður við innleiðingu úrræðisins hjá þeim muni nema tveimur milljörðum punda á næstu fimm árum. " Sé sú upphæð heimfærð að gjaldmiðli og höfðatölu jafngildir hún um tveimur milljörðum íslenskra króna".
Þingmennirnir telja þörfina á úrræðum til að greiða leið ungs fólks inn á fasteignamarkaðinn sé löngu orðin ljós. "Ör hækkun fasteignaverðs undanfarin ár, auknar kröfur lánveitenda til lántaka um að standast greiðslumat, lækkun lánshlutfalls lánastofnana við fasteignakaup og mikil hækkun leiguverðs eru meðal þeirra þátta sem gera ungu fólki erfitt að fóta sig á húsnæðismarkaði og kalla á aðgerðir hins opinbera. Möguleikinn á nýtingu séreignarsparnaðar til uppgreiðslu lána eða útborgunar í fasteign er skref í rétta átt en nýtist ekki öllum þjóðfélagshópum. Þannig nýtist sú leið tæplega námsmönnum eða nýútskrifuðum nemum sem hafa ekki aflað tekna á vinnumarkaði nema að takmörkuðu leyti".
Vildu áður skattaafslátt fyrir 34 ára og yngri
Þrir flutningsmannanna, þær Elsa Lára, Silja Dögg og Jóhanna María, lögðu fram, ásamt Karli Garðarsyni og Haraldi Einarssyni, frumvarp í vor um breytingar á lögum um tekjuskatt þess efnis að þeir sem hafa ekki náð 34 ára aldri verði „heimilt að stofna einn húsnæðissparnaðarreikning sem veitir rétt til skattaafsláttar. [...]Hver maður getur aðeins átt einn húsnæðissparnaðarreikning“.
Skattaafslátturinn sem veita ætti vegna húsnæðissparnaðar á samkvæmt frumvarpinu að vera 20 prósent af innleggi hvers tekjuárs en aldrei yfir 200 þúsund krónur.
Húsnæðissparnaðarreikningar eiga að vera bundnir til tíu ára frá fyrstu innlögn, en reikningseigandinn getur þó fengið aðgang að upphæðinni á honum eftir tvö ár sýni hann fram á að hann ætli sér að kaupa, byggja eða endurbæta íbúðarhúsnæði.
Þetta var í fjórða sinn sem frumvarpið var lagt fram en það hefur aldrei hlotið efnislega meðferð. Það hlaut ekki slíka á síðasta þingi heldur.