Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, segir að tölvupóstar milli Ingva Hrafns Óskarssonar, fráfarandi formanns stjórnar RÚV, og starfsmanns fjármálaráðuneytisins, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, sýni að stjórnendur RÚV hafi veitt fjárlaganefnd rangar upplýsingar. Blaðið hefur þetta eftir Guðlaugi Þór í dag.
Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hafa áður haldið því fram að forsvarsmenn RÚV hafi vísvitandi blekkt fjárlaganefnd með því að gefa þeim rangar upplýsingar um stöðu félagsins. Útvarpsstjóri hafnaði þeim ásökunum alfarið í síðustu viku.
Stjórnarformaður hættir fjórum dögum eftir skýrslu
Ingvi Hrafn, sem sat í stjórninni sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði óvænt af sér sem formaður stjórnar RÚV í gærkvöldi með tilkynningu til Kauphallar Íslands. Í tilkynningunni gaf hann þá skýringu að framundan væru umfangsmikil verkefni viðað móta framtíð félagsins. „Við þær aðstæður tel ég nauðsynlegt að formaður stjórnar Ríkisútvarpsins eigi þess kost að sinna hinum brýnu viðfangsefnum af kostgæfni. Vegna mikilla og vaxandi anna í starfi mínu sem lögmaður sé ég mér því miður ekki fært að verja áfram nauðsynlegum tíma og orku í störf fyrir hönd Ríkisútvarpsins samhliða lögmannsstörfunum. Á þessum tímamótum tel ég því skynsamlegt að annar taki við verkefninu og fylgi því úr hlaði.“
Ingvi Hrafn þakkaði Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarsstjóra, sérstaklega fyrir einkar gott samstarf og Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þann „eindregna stuðning“ sem stjórn og stjórnendur RÚV hafi notið.
Ingvi Hrafn og Magnús Geir hafa verið mjög samtaka í varðstöðu sinni um rekstur RÚV undanfarið eitt og hálft ár. Afsögn Ingva Hrafns kemur fjórum dögum eftir að umdeild skýrsla um RÚV var gerð opinber.
Í skýrslu nefndarinnar, sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra skipaði til að greina þróun á starfsemi RÚV og kom út í síðustu viku var rekstur fyrirtækisins harðlega gagnrýndur. Þar sagði meðal annars að rekstur RÚV hafi verið ósjálfbær frá því að fyrirtækið var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007. Alls nemur tap umfram hagnað 813 milljónum króna á því tímabili, og er þar gert ráð fyrir þeim tekjum sem RÚV hefur af útvarpsgjaldi sem landsmönnum er skylt að greiða. Samt sem áður gera áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins, að 3,2 milljarða króna lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV og að sala á byggingarétti á lóð fyrirtækisins gangi eftir. Gangi allar þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Forsvarsmenn RÚV hafa hafnað mörgu sem fram kemur í skýrslunni og hafa gagnrýnt hana harðlega.
Morgunblaðið birtir tölvupóstsamskipti
RÚV var heitið skilyrtu aukaframlagi á fjárlögum að fjárhæð 182 milljónir króna. Framlagið var bundið því að RÚV myndi mæta ákveðnum skilyrðum í rekstri sínum.
Í Morgunblaðinu í dag er sagt að í vor hafi fulltrúar RÚV komið á fund fjárlaganefndar og sýnt glærukynningu. Á einni hafi staðið orðrétt: „Fjármálaráðuneytið staðfesti í tölvupósti þann 26.3.2015 að RÚV hefði fullnægt skilyrðum sem sett voru í nefndaráliti við aðra umræðu fjárlaga vegna fjárveitingar upp á 181,5 milljónir vegna ársins 2015.“
Í Morgunblaðið er síðan vitnað í tölvupósta sem gengið höfðu á milli fjármálaráðuneytisins og Ingva Hrafns í tengslum við málið. Í pósti frá Ingva Hrafns til ráðuneytisins segir: „Í fjárlögum liggur fyrir í greinargerð skilyrði sem lúta að fjárveitingu til Ríkisútvarpsins ohf. og þar á meðal um tiltekna upplýsingagjöf sem kveðið er á um að skuli eiga sér stað fyrir næstu mánaðamót. Málin hafa hins vegar farið í nokkuð annan farveg en greinargerðin mælir fyrir um. Starfshópur á vegum fjármálaráðherra, forsætisráðherra og menntamálaráðherra hefur að undanförnu farið yfir og greint fjárhagsupplýsingar og rekstraráætlanir félagsins og ráðstafanir vegna fjárhagsstöðunnar eru til skoðunar.
Með þessum tölvupósti óskast staðfest af hendi fjármálaráðuneytisins að ekki sé krafist að Ríkisútvarpið leggi fram sérstaka rekstraráætlun til viðbótar við þau gögn sem þegar hafa verið kynnt framangreindum vinnuhópi, og að RÚV teljist ekki hafa brotið gegn skilyrðum fjárlaga með því að leggja ekki fram umrædda rekstraráætlun á þessu stigi.“
Starfsmaður ráðuneytisins svarar því til að hann geti „staðfest að starfshópur á vegum ráðuneytanna þriggja hefur móttekið gögn frá Ríkisútvarpinu ohf. í samræmi við þau skilyrði sem fjárlaganefnd setti í nefndaráliti við aðra umræðu fjárlaga. Hópurinn hefur haft gögnin til skoðunar og ekki er útilokað að hópurinn óski eftir viðbótargögnum áður en málið verður lagt fyrir ráðherranefnd um ríkisfjármál.“
Guðlaugur Þór segir svör ráðuneytisins ekki í samræmi við þær fullyrðingar sem forystumenn RÚV báru fyrir fjárlaganefnd í mars og segir að þær upplýsingar hafi ekki verið réttar. „Það er grundvallaratriði ef nefndin á að geta sinnt eftirlitshlutverki að hún fái réttar upplýsingar. Við eigum ekki að þurfa að efast um það sem er lagt fyrir nefndina“.