„Í eina röndina fallast mér gjörsamlega hendur og mig langar til að öskra á feðraveldið að hætta þessu djöfulsins rugli en þar sem ég er einstaklega góð í að vinna undir álagi og sinni vanalega ekki heimilisstörfum án þess að gera eitthvað annað á meðan velti ég fyrir mér hvað getum við gert hérna til að breyta þessu og þá sérstaklega þessum viðhorfum.“
Þetta sagði Heiða Kristín Helgadóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag, þegar hún vakti athygli á sláandi niðurstöðum nýrrar rannsóknar þar sem fram kemur meðal annars að í 82 prósentum tilvika séu karlar í meirihluta framkvæmdastjórna fyrirtækja hér á landi.
Það er gott hjá Heiðu Kristínu að gera þetta að umtalsefni, og full þörf á því að nota stór orð, jafnvel þó það fari fyrir brjóstið á forseta Alþingis. Niðurstöður úr rannsóknum sem þessum hafa sýnt viðlíka veruleika áður. Meðal annars framkvæmdi Kjarninn eina slíka rannsókn í mars á þessu ári, og horfði þá sérstaklega til þeirra sem stýra fjárfestingum, hjá lífeyrissjóðum og í fjármálakerfinu. Niðurstöðurnar voru sláandi, konum í óhag. Um það bil 90 prósent karlar á móti 10 prósent konum.
Þessar niðurstöðu eru órökréttar sé horft til þess að konur að er meðaltali með meiri menntun en karlar, eru fjölmennari í nær öllum deildum háskólanna og standa sig að meðaltali betur en karlar í námi. Lagabreytingar duga skammt til að rétta hlut kvenna, ef viðhorfsbreytingin fylgi ekki. Tökum okkur á! Þessi staða er skammarleg.