Almennir notendur geta nú loks náð sér í Beta-útgáfu af Vivaldi-vefvafranum, sem hefur verið í þróun undanfarin misseri. Stór hluti þeirra starfsmanna sem unnið hafa að gerð vafrans eru staðsettir á Íslandi og fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu hins íslenska Jón Von Tetzchner.
Í tilkynningu frá Vivaldi segir að tilgangurinn hafi verið að þróa vafra sem væri hraður, öflugur og aðlögunarhæfur fyrir stórnotendur.
Hægt er að ná sér í vafrann hér.
Hefur fengið frábæra dóma
Vivaldi er fyrirtæki sem frumkvöðulinn Jón Von Tetzchner stofnaði fyrir nokkrum misserum. Það gaf út svokallaða tæknilega útgáfu af vafra í janúar síðastliðnum, sem þýddi í raun að enn væri verið að þróa vafrann og útgáfan því ekki endanleg. Nú þegar er búið að niðurhala vafranum í yfir tvö milljón skipti og hann hefur einnig fengið frábæra dóma hjá tæknifjölmiðlum.
Jón hafði áður byggt upp fyrirtæki í kringum vefvafra, Operu, sem hann seldi síðan. Í viðtali við Kjarnann í maí sagði hann að það hefði verið erfið ákvörðun að fara aftur í vafrageirann. Hann taldi sig búinn með hann. „Þegar ég fór út úr Operu þá leit ég á það þannig að ég væri búinn með vafrageirann. En svo á sér stað ákveðin ákvörðunartaka í Operu sem í fólst að þeir kasta grunninum og skipta um notendahóp. Það eru 350 milljónir notendur af Operu í dag. Ég myndi giska á að 300 milljónir þeirra séu að nota gamla grunninn. Þetta er sérstakt. Opera sagði að þessi notendahópur sem þeir væru með væru einhverjir nördar og að nú vildu þeir ná í venjulega notendur. Því var ákveðið að búa til einfaldari vafra og fara í samkeppni við alla. Ég tel það mjög erfitt. Að fara í samkeppni án þess að hafa neinar viðbætur. Augjóslega þarf vara að vera öðruvísi til að hægt sé að keppa.“
Fyrir stórnotendur
Fyrir flesta netnotendur er vafri bara vafri og erfitt að sjá hvað einn vafri getur boðið upp á fram yfir annan. Jón sagði við Kjarnann í maí að Vivaldi sé vafri fyrir notendur sem krefjast meira. „Venjulegir notendur sem eru bara að fara á Facebook og skoða nokkrar netsíður hafa enga þörf fyrir það sem við erum að byggja. En ef þú ert notandi sem ert mikið á netinu, til dæmis með mjög marga fána (e. tabs) opna, eða byrjar með marga fána, þá bjóðum við upp á svokallað „stacking“ sem þýðir að þú getur geymt marga fána undir einum. Þá er einfaldara að finna hluti. Við fundum upp möguleikann að hafa síður hlið við hlið á sama skjánum. Og ýmislegt annað. Þetta er fyrir stórnotendur á netinu.“