Mikil líkindi hafa verið með þróun á stuðningi við sitjandi ríkisstjórn og þeirrar sem sat á undan henni. Báðar fengu meirihluta atkvæða í kosningum (51,5 og 51,1 prósent), báðar nutu mikils stuðnings mánuði eftir að þær tóku við (61 og 62,4 prósent), stuðningur við báðar hafði tæplega helmingast á síðari hluta kjörtímabils þeirra ( 33 og 35,4 prósent) og samanlagt fylgi þeirra flokka sem mynduðu ríkistjórn 2009 og þeirra sem mynduðu hana 2013 er mjög svipað 18 mánuðum áður en ríkisstjórnirnar tvær leggja verk sín í dóm kjósenda ( 35,8 og 34,2 prósent).
Tiltektarríkisstjórnin sem missti tiltrú kjósenda
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók fyrst við völdum í febrúar 2009, þá sem minnihlutastjórn sem sat með stuðningi Framsóknarflokksins fram að kosningum. Þær fóru síðan fram 25. apríl 2009.
Í þeim kosningum fékk Samfylkingin 29,8 prósent atkvæða og Vinstri græn 21,7 prósent. Samtals féllu því 51,5 prósent atkvæða flokkunum tveimur í skaut.
Mánuði síðar, í maí 2009, mældist stuðningur við nýju ríkisstjórnina hærri en hann átti nokkru sinni eftir að gera aftur, en þá sögðust 61 prósent landsmanna styðja hana. Eftir það dalaði stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hratt.
Í október 2011, þegar síðari hluti kjörtímabilsins var hafin, mældist stuðningur við ríkisstjórnina 33 prósent. Fylgi flokkanna hafði einnig dalað mikið frá kosningunum 2009. Á þessum tíma fyrir rúmum fjórum árum sögðust 21,3 prósent hafa hug á því að kjósa Samfylkinguna en 14,5 prósent Vinstri græn. Samtals var fylgi þeirra því 35,8 prósent.
Ríkisstjórnin náði sér aldrei aftur á strik í könnunum. Stuðningur við hana hélst á svipuðu reiki fram að kosningunum þann 27. apríl 2013. Í þeim var stjórnarflokkunum rækilega hafnað. Samfylkingin fékk einungis 12,9 prósent atkvæða og Vinstri græn 10,9 prósent. Samtals töpuðu flokkarnir tveir 27,7 prósentustigum milli kosninga eftir að hafa stýrt landinu í fjögur ár. Sem verður að teljast afhroð.
Sama þróun hjá sitjandi ríkisstjórn
Við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fyrrnefndi flokkurinn hafði fengið 26,7 prósent atkvæða í kosningunum í apríl 2013 og sá síðarnefndi, sem var óumdeilanlega sigurvegari þeirra kosninga, 24,4 prósent. Samtals var fylgi nýju stjórnarflokkanna sem mynduðu ríkisstjórn 51,1 prósent.
Og nýja ríkisstjórnin var vinsæl. Samkvæmt könnun Gallup frá því í maí 2013 studdu 62,4 prósent landsmanna ríkisstjórnina mánuði eftir að hún tók við völdum.
Síðan hefur fjarað nokkur fljótt undan þeim mikla stuðningi. Í október síðastliðnum, þegar stjórnartíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er rúmlega hálfnuð, mælist stuðningur við hana 35,4 prósent. Fylgi stjórnarflokkanna er heldur ekki upp á marga fiska. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,6 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn með 9,6 prósent. Samtals mælist fylgi þeirra 34,2 prósent, sem er 16,9 prósentustigum undir því sem þeir fengu í kosningunum 2013.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þó um eitt og hálft ár til að snúa stöðu sinni við því næstu kosningar eru áætlaðar vorið 2017.
Stöðugleiki Pírata
Gallup birti nýja könnun á fylgi stjórnmálaflokka í fyrradag. Þar kom í ljós að lítil hreyfing virðist vera á fylgi undanfarna mánuði. Píratar mælast langstærsti flokkur landsins líkt og þeir hafa gert frá því í apríl. Fylgi flokksins hefur nú mælst yfir 30 prósent í sjö könnunum Gallup í röð. Framan af snérist orðræða annarra stjórnmálaflokka um mikið fylgi Pírata um að það hlyti að vera tímabundið. Sá tími virðist liðinn.
Aðrir stjórnarandstöðuflokkar virðast eiga mjög erfitt uppdráttar um þessar mundir. Samanlagt fylgi Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar mælist 24,9 prósent. Þeir eru því að mælast með samanlagt svipað fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn, en 24,6 prósent aðspurðra segja að þeir myndu kjósa hann ef kosið yrði í dag.
Framsóknarflokkurinn mælist síðan með 9,6 prósent fylgi, sem er næst lægsta fylgismæling sem flokkurinn hefur fengið á þessu kjörtímabili. Eina skiptið sem fylgi Framsóknar hefur mælst lægra í könnunum Gallup var í maí síðastliðnum, þegar það mældist 8,9 prósent.