Það eitt prósent Íslendinga sem var með hæstu tekjurnar í fyrra jók ráðstöfunartekjur sínar mest á árinu, eða um 9,6 prósent. Til að teljast til efsta eins prósentsins þurfa ráðstöfunartekju framteljenda, einstaklinga eða sambúðarfólks, að vera yfir 20,6 milljónum króna á ári, eða um 1,7 milljónir króna á mánuði. Næst mest aukning var á meðal þeirra tíu prósent tekjuhæstu, en þar hækkuðu tekjurnar um 6,8 prósent í fyrra. Til að tilheyra þeim hópi þurfti að vera með árstekjur upp á 10,1 til 20,6 milljónir króna. Tekjur annarra tekjuhópa, 90 prósent landsmanna, hækkuðu minna. Tekjur annarra tekjuhópa jukust að jafnaði um fimm til sex prósent. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti.
Þar segir einnig að þegar rýnt er í hvað sé að baki tekjuaukningunni þá muni mest um fjármagnstekjur hjá tekjuhæstu tíu prósentunum, en þær aukst um 31 prósent milli ára á sama tíma og þær dragast saman hjá öðrum tekjuhópum. Atvinnutekjur efsta hópsins hækka þó minna en slíkar tekjur hjá örðum hópum.
Ríkasti hlutinn fékk um helming af auknum auði
Tekjuhæsti hópurinn er ekki einungis að auka tekjur sínar hraðar en aðrir. Virði eigna hans hækkar einnig mikið á ár frá ári. Kjarninn greindi frá því í lok september að sá fimmtungur Íslendinga sem hafði hæstar tekjur á árinu 2014, alls tæplega 40 þúsund manns, jók hreina eign sína um 142,2 milljarða króna á því ári. Tæpur helmingur aukningar á auði íslenskra heimila á síðasta ári féll í skaut þessa hóps.
Tekjuhæsta tíund landsmanna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helmings þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar, alls um eitt hundrað þúsund manns, um 72 milljarða króna, eða 16,2 milljarða króna minna en ríkasti hluti þjóðarinnar.
Auk þess á ríkasta tíund þjóðarinnar yfir helming allra verðbréfa, en virði þeirra í þessari samantekt er á nafnvirði. Markaðsvirði þeirra verðbréfa, sem eru til dæmis hlutabréf í fyrirtækjum landsins, er mun hærra en uppgefið nafnvirði. Því er eigið fé þessa hóps, alls 19.711 einstaklinga, því líklega mun meira en tölur Hagstofu Íslands gefa til kynna.