Gunnar H. Sverrisson hefur verið ráðinn forstjóri Odda. Hann tekur við starfinu af Þorgeiri Baldurssyni, sem verið hefur forstjóri Odda og tengdra félaga frá árinu 1983 og starfað hjá fyrirtækinu síðan 1960. Staðan var auglýst til umsóknar og Gunnar í kjölfarið ráðinn.
Kjarninn greindi frá því um liðna helgi að Oddi hefði sagt upp tólm starfsmönnum í hagræðingaraðgerðum. Oddi er stærsti framleiðandi landsins á sviði umbúða úr pappír og plasti, ásamt því að veita atvinnulífinu fjölbreytta prentþjónustu. Oddi hefur um 3.500 viðskiptavini og 240 starfsmenn á fjórum stöðum í Reykjavík. Útlit er fyrir að velta fyrirtækisins muni dragast saman á þessu ári miðað við árið í fyrra, en hún mun þó nema um fimm milljörðum króna
Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem forstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) og tengdum félögum 2004-2014. Gunnar var fjármálastjóri ÍAV 1998-2004, forstöðumaður stjórnunarsviðs Kaupþings 1996-1998 og fjármálastjóri Ármannsfells 1992-1996. Hann sat í stjórn Plastprents 1999-2003, en það fyrirtæki var sameinað Odda árið 2012.
Kristinn ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, eiganda Ísfélagsins, Íslensk/Ameríska og stórs hluta Morgunblaðsins, keypti meirihluta hlutafjár í Kvos, móðurfélagi Odda, í nóvember 2013. Seljendur voru einkum fjölskyldur nokkurra erfingja stofnenda Odda, og var kaupverðið sagt trúnaðarmál í tilkynningu. Eignarhluti Þorgeirs Baldurssonar, forstjóra Kvosar, hélst þó óbreyttur eftir aðkomu Kristins.
.