Landsbankinn hagnaðist um 12 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Bakfærð varúðarfærsla vegna gengislána til fyrirtækja skýrir 6,8 milljarða króna af hagnaðinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum vegna níu mánaða uppgjörs ríkisbankans. Alls nemur hagnaður Landsbankans frá ársbyrjun og út septembermánuð 24,4 milljörðum króna. Eigið fé hans er nú 252,2 milljarðar króna.
Íslenska ríkið á Landsbankann að mestu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016 stendur til að íslenska ríkið selji 30 prósent hlut í Landsbankanum á næsta ári. Samhliða stendur til að skrá Landsbankann aftur á hlutabréfamarkað, en forveri hans var skráður þar áður en hann fór á hliðina í október 2008.
Í fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósent hlutinn. Miðað við það verð má ætla að markaðsvirði bankans sé um 237 milljarðar króna að mati stjórnvalda. Eigið fé Landsbankans í lok september var 252,2 milljarðar króna.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir afkomuna á fyrstu níu mánuðum ársins vera góða, og betri en á sama tíma í fyrra. "Arðsemi eiginfjár eftir skatta er 13,5% og fjárhagslegur styrkur bankans er mikill. Á 3. ársfjórðungi munar mikið um áhrif af dómum Hæstaréttar í málum nr. 34/2015 og 35/2015 sem vörðuðu ágreining um gengislán til stærri fyrirtækja. Vegna fordæmisgildis dómanna bakfærir bankinn varúðarfærslu frá 2012 sem hefur jákvæð afkomuáhrif upp á 6,8 milljarða króna, eftir skatta.
Rekstur bankans heldur áfram að batna. Kostnaðarhlutfall er hagstætt, eða 45,7%. Tekjur hafa aukist vegna vaxandi umsvifa og hagstæðra aðstæðna í hagkerfinu og aðhaldsaðgerðir hafa skilað árangri. Samþætting Sparisjóðs Norðurlands við bankann gengur vel.
Fjármögnun bankans hefur styrkst verulega undanfarið með útgáfu skuldabréfa á erlendum fjármálamarkaði. Þá hafa innlán og útlán aukist töluvert. Búast má við að nokkuð hægi á útlánavexti á næstu mánuðum og að innlán minnki í kjölfar samþykkis nauðasamninga hinna föllnu fjármálafyrirtækja og skrefa sem verða stigin í átt að afnámi fjármagnshafta. Vegna þessa má búast við að efnahagsreikningur Landsbankans minnki um allt að 10%. Bankinn leggur mikla áherslu á sterka lausafjárstöðu og er því vel undirbúinn fyrir þessar breytingar.
Við í Landsbankanum lítum björtum augum til framtíðar. Við höfum mótað okkur skýra stefnu sem mun skapa bankanum enn sterkari samkeppnisstöðu, viðskiptavinum og hluthöfum til góða.“