Tillaga verður lögð fram á næsta flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar um að minnsta kosti einn frambjóðandi yngri en 35 ára skuli vera í einu af þremur efstu sætunum á framboðslistum flokksins. Auk þess er lagt til að ávallt skuli leitast við að á framboðslistum séu frambjóðendur yngri en 35 ára í að minnsta kosti fimmtungi þeirra sæta sem stillt er upp í.
Samfylkingin heldur flokksstjórnarfund 14. nóvember næstkomandi á Akranesi þar sem afstaða verður tekin til tillögunnar. Verði hún samþykkt mun það verða í fyrsta sinn sem íslenskur stjórnmálaflokkur setur aldurskvóta í skuldbindandi reglum við val á framboðslista.
Frumflutningsmaður tillögunar er Natan Kolbeinsson, miðstjórnarmeðlimur og fyrrum formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Á meðal sex meðflutningsmanna er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Elsti þingflokkur landsins
Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir: að Þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki farið í gegnum neina nýliðun við síðustu alþingiskosningar og þar að auki séu nær allir varaþingmenn flokksins fyrrverandi þingmenn. Samfylkingin hefði þurft að fjórfalda fylgi sitt til þess að ungt fólk kæmist á lista.
„Flokkurinn þarf nauðsynlega á því að halda að nýtt og ungt fólk eigi raunhæfa möguleika á því að komast á þing eftir næstu kosningar. Þingflokkur Samfylkingarinnar er elsti þingflokkurinn á alþingi í dag og yngsti þingmaður flokksins er sú kona sem hefur þó mesta þingreynslu og hefur setið á þingi í 12 ár.
Flytjendur þessarar tillögu telja það mikilvægt fyrir flokkinn að fyrir næstu kosningar fari fram ákveðin kynslóðarskipti í flokknum og ungt fólk eigi raunverulega möguleika á því að verða alþingismenn fyrir flokkinn eftir kosningar. Framboðslistar verða að sýna fjölbreytileika flokksins og gefa röddum ungs fólks, sem og annarra þjóðfélagshópa, vægi. Aðeins þannig getur Samfylkingin státað sig af því að vera málsvari almannahagsmuna og sýnt í verki að hún treysti ungu fólki til ábyrgðarstarfa.“