Kostnaður embættis Ríkisskattstjóra við framkvæmd leiðréttingarinnar, höfuðstólslækkunar íbúðalána, var 92 milljónum krónum meiri en upphaflegt mat gerði ráð fyrir. Samkvæmt því átti kostnaðurinn að nema 233 milljónum króna en þar sem vinna við framkvæmdina krafðist meiri mannafla en ráð hafði verið gert fyrir, auk þess sem hugbúnaðargerð hafi verið „umfangsmikil“, þá sé fyrirséð að kostnaðurinn muni nema 325 milljónum króna. Kostnaðurinn er því um 40 prósent hærri en gert var ráð fyrir í upphafi. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga vegna ársins 2015.
Leiðréttingin er aðgerð ríkisstjórnarinnar um að greiða niður verðtryggð húsæðislán þeirra sem voru með slíka árin 2008 og 2009. Heildarkostnaður hennar er um 80,4 milljarðar króna.
Minna í persónuafslátt en áætlað var
Í frumvarpi til fjáraukalaga er einnig tilgreindur viðbótarkostnaður vegna niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila upp á 758 milljónir króna. Þar segir að meginskýringu þessa liggja í því að í upphaflegu mati á niðurfærslunni hafi verið gert ráð fyrir að stærri hluti hennar myndi verða greiddur út í formi lægri tekna ríkissjóðs í formi sérstaks persónuafsláttar, eða samanlagt 7,2 milljarðar króna. Endurmat á áætluninni, í ljósi nýrra upplýsinga frá ríkisskattstjóra, gefur hins vegar til kynna að sérstaki persónuafslátturinn verði 5,8 milljarðar króna, eða 1,4 milljörðum króna lægri en áætlað var. „Þar sem greiðslur til lánastofnana vegna niðurfærslunnar fara að mestu leyti fram á þessu ári þá færist meirihluti þessara viðbótargjalda einnig til gjalda á árinu 2015,“ segir í frumvarpinu.
Kjarninn hefur áður greint frá því að ekki liggi fyrir hvernig þeir 5,8 milljarðar króna sem greiða á út sem sérstakan persónuafslátt vegna leiðréttingarinnar skiptast á milli aldurs- og tekjuhópa eða landssvæða. Það fólk sem sótti um og fékk samþykkta leiðréttingu sem er ekki lengur með húsnæðislán til að láta greiða inn á fær greitt í gegnum sérstakan persónuafslátt.