Á árinu 2014 tóku 76 prósent karla sem eignuðust barn fæðingarorlof eða fengu greiddan fæðingarstyrk. Á árinu 2009 var hlutfall þeirra 85 prósent. Þeim körlum sem taka fæðingarorlof eða þiggja fæðingarstyrk hefur því fækkað um tæp ellefu prósent á fimm árum. Hlutfall kvenna sem eignast barn og taka fæðingarorlof eða þiggja fæðingarstyrk hefur einnig dregist saman, en mun minna. Árið 2009 tóku 99 prósent þeirra orlof en 97 prósent í fyrra. Þetta kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um greiðslur í fæðingarorlofi.
Hámarksgreiðslur hrundu eftir hrunið
Í svarinu segir að „undanfarin ár hefur mæðrum fjölgað sem hvorki fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði né greiddan fæðingarstyrk. Árið 2011 var um að ræða 84 mæður, árið 2012 voru þær 119, árið 2013 voru þær 130 og árið 2014 voru 138 mæður sem hvorki fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði né greiddan fæðingarstyrk.
Fæðingarorlof foreldra er samanlagt níu mánuðir. Hvort foreldri fyrir sig fær þrjá mánuði og hinum þremur er síðan hægt að ráðstafa eftir hentugleika. Á fyrstu árunum eftir að fæðingarorlofsgreiðslur til feðra hófust var ekkert þak á hámarksgreiðslum. Því var breytt árið 2008 en þakið var það hátt að fáir rákust í það. Hámarksgreiðslan þá var 535 þúsund krónur á mánuði.
Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa hins vegar tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum. Í janúar 2009 var hámarksgreiðsla lækkuð í 400 þúsund krónur og nokkrum mánuðum síðar í 350 þúsund krónur. Í janúar 2010 var það svo lækkað niður í 300 þúsund krónur. Þakið var hækkað aftur upp í 350 þúsund krónur árið 2013 og upp í 370 þúsund krónur 2014. Það á hins vegar langt í land með að ná því sem það var árið 2008.
Mun fleiri karlar fengu hámarksgreiðslu
Í svari Eyglóar segir að samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði var hlutfall foreldra sem fékk hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði árið 2010 um 31 próset allra foreldra sem fengu greitt fæðingarorlof. Þá var hlutfall mæðra sem fékk hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði um 18 prósent en hlutfall feðra um 50 prósent. Árið 2013 var hlutfall foreldra sem fékk hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði um 30 prósent, hlutfall mæðra sem fékk hámarksgreiðslu var um 19 prósent en hlutfall feðra um 43 próent.
Árið 2014, eftir að hámarksgreiðsla til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði hækkaði í 370.000 krónur á mánuði var hlutfall foreldra sem fékk um 28,4 prósent. Þá var hlutfall mæðra sem fékk hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði um 17 prósent en hlutfall feðra um 41 prósent.