Elín Hirst, sem var fréttastjóri fréttastofu RÚV á árunum 2002 til 2008 og starfaði hjá fyrirtækinu í meira en áratug, segist fyrir sitt leyti ekki geta stutt breytingu á fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 sem fela myndi í sér meira fé til RÚV en nú er. Elín er í dag þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
Samkvæmt gildandi fjárlagafrumvarpi á að lækka útvarpsgjaldið úr 17.800 krónum í 16.400 krónur. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur sagt að ef gjaldið verði lækkað þá kalli það á niðurskurð hjá RÚV. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur boðað að hann muni leggja fram frumvarp á næstunni um að útvarpsgjaldið verði óbreytt. Ljóst er að það er fjarri því eining um það frumvarp í Sjálfstæðisflokknum eða í samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. Bæði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og samflokksmaður Illuga, hafa sagt opinberlega að þau séu á móti því að fallið verði frá fyrirhugaðri lækkun útvarpsgjalds. Þau telja einnig að það sé ekki meirihluti á þingi fyrir þeirri aðgerð.
Í grein Elína segir að ný skýrslu um fjárhagsstöðu RÚV sýni „svart á hvítu að stofnunin hefur ekki notað síðustu ár vel til að breyta rekstrinum þannig að jafnvægi náist. Og ef fram heldur sem horfir verður ástandið bara verra með hverju rekstrarárinu. Á sama tíma og rík áhersla er að ná stöðugleika í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir hins opinbera til að bæta þjóðarhag til frambúðar kemur í ljós að Ríkisútvarpið er á allt annarri vegferð. Það er óásættanlegt fyrir skattgreiðendur.“
Hún sé þó þeirrar skoðunar að RÚV hafi menningarhlutverki aðgegna og þyki vænt um fyrirtækið, sem hún kallar reyndar stofnun. „En nú er breytinga þörf. Við þurfum að endurskoða hlutverk RÚV miðað við þá tækni sem við höfum í dag þar sem svokölluð línuleg dagskrá er á undanhaldi og fólk getur í auknum mæli valið sér sjálft það efni sem það vill sjá þegar það vill sjá það í gegnum ólíkar efnisveitur.
En þarna felast einmitt tækifæri fyrir RÚV á nýjum tímum. Nú fara nærri sex milljarðar árlega í að reka þetta stóra fyrirtæki sem reynir eftir mætti að vera efni fyrir alla, erlent sem innlent, í langri dagskrá allan ársins hring. Það er tímaskekkja. Í staðinn á að nota fjármuni til að styrkja íslenska sjónvarpsþáttagerð svo um munar og gera hana að alvöru iðnaði eins í Skandinavíu og Bretlandi, svo dæmi sé tekið. Í öðru lagi er hjá RÚV varðveitt innlent ómetanlegt dagskrárefni frá því að það hóf starfsemi sína. Nota ætti fé til að koma þessum menningarverðmætum inn í efnisveitu; eins konar íslenskt YOUTUBE, sem allir landsmenn hefðu aðgang að“.