Íbúar í þéttbýli í norð-austurhluta Kína hafa þurft að setja á sig öndunargrímur og halda sig innandyra frá því í gær, eftir að mengun fór víða langt yfir hættumörk. Kolabrennsla til húsahitunar er helsta ástæða gífurlegrar mengunar en vetur gengur nú í garð á svæðinu.
Í umfjöllun The Guardian segir að skyggni í gær hafi á nokkrum stöðum verið allt niður í hundrað metrar. Mengunarstig mældist um 56 sinnum hærra en þau mörk sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur örugg. Nokkrir höfðu þegar sótt sér læknisaðstoð vegna verkja í öndunarfærum.
Að sögn AP fréttastofunnar var gærdagurinn einn sá versti síðan kínversk yfirvöld hófu að birta mælingar á mengun árið 2013. Á samfélagsmiðlum hafa yfirvöld verið gagnrýnd fyrir sinnuleysi og ástandið verið kallað „airpocalypse“ eða lofthamfarir.