Fréttablaðið hefur verið krafið um 20 milljónir króna í miskabætur vegna fréttar sem birtist á forsíðu blaðsins í gærmorgun. Einnig er verið að íhuga málaferli gegn þeim sem deildu myndum af tveimur mönnum sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun, nafngreindu þá eða kölluðu þá nauðgara á netinu.
Í frétt Fréttablaðsins var sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása sem átt hefðu sér stað í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur hafa kært tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „ Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður annars mannanna, var í viðtali við Morgunútvarpið í morgun. Þar sagði hann að báðir mennirnir neituðu sök og að kæra hefði verið lögð fram gegn konunum fyrir rangar sakagiftir. Hann hafi auk þess sent kröfubréf til Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra 365, sem Fréttablaðið tilheyrir, þar sem fram er farið á afsökunarbeiðni og miskabætur upp á tíu milljónir króna fyrir hvorn mannanna sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun. Vilhjálmur sagðist telja ábyrgð Fréttablaðsins í málinu vera mjög mikla og að bein orsakatengsl væru milli fréttar blaðsins og þeirrar „múgæsingar“ sem hafi orðið í gær, þegar þúsundir manna birtu myndir af hinum grunuðu og nafngreindu þá á samfélagsmiðlum. Vilhjálmur segir 365 hafa þangað til á morgun að bregðast við kröfubréfinu.
Hann segir einnig að hann telji að allir sem deildu mynd af mönnunum, nöfnum þeirra og kölluðu þá nauðgara hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Verið sé að safna gögnum í málinu og verið sé að íhuga málsókn.
Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, var einnig til viðtals í Morgunútvarpinu í morgun. Hún sagði að Fréttablaðið stæði að öllu leyti við fréttina.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði í gær að það væri ekki rétt sem fram kom á forsíðu Fréttablaðsins að íbúð í Hlíðarhverfinu hafi „verið sérútbúin fyrir þessar athafnir". Það væri orðum aukið. Við RÚV sagði Alda: „Sú mynd sem hefur verið máluð í þessu máli í fjölmiðlum er gríðarlega alvarleg og ég held að við getum alveg sagt það að hefði hún verið rétt þá hefðum við farið fram á almannagæslu. Ef það væri sérútbúin íbúð til að brjóta á öðru fólki. Ég hef sagt það að það er ekki rétt. Hún er ekki sér útbúin til þess.“
Kristín Þorsteinsdóttir sagði við RÚV í gærkvöldi að engin ástæða væri til að bera efnisatriði fréttarinnar til baka. Orðið „sérútbúin" hafi ekki verið að finna í frétt blaðsins. Hún endurtók þá staðfestu í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í dag.
Í Fréttablaðinu í dag er fréttinni fylgt eftir. Þar er haft eftir Öldu Hrönn að „í okkar gögnum höfum við ekki neitt sem sýnir að íbúðin sé útbúin til nauðgana og við getum ekki fullyrt neitt um það. Þetta er þó matskennt hugtak sem og önnur hugtök sem maður hefur séð í dag, til dæmis hugtakið raðnauðganir".