Íslendingar hafa samtals greitt séreignarsparnað upp á 12,4 milljarða króna inn á húsnæðislán sín á árunum 2014 og 2015 sem hluta af leiðréttingunni svokölluðu. Ríkið og sveitarfélög hafa veitt þeim hópi sem þetta hefur gert samtals 5,1 milljarð króna í skattafslátt. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns um skattfrjálsa útgreiðslu séreignasparnaðar.
Stjórnvöld vita ekki nákvæmlega hversu margir eru að nýta sér úrræðið en samkvæmt grófu mati á fjöldatölum sóttust um 35 þúsund manns eftir því. Hluti umsóknanna eru þó ekki virkar.
Ef það fjölgar ekki hratt í hópi þeirra sem nýta sér úrræðið á næstunni þá mun það verða fjarri því að skila þeim 70 milljörðum króna í niðurgreiðslu á húsnæðislánum sem kynntir voru í leiðréttingarkynningum stjórnvalda.
Heildaráhrif aðgerða áttu að vera 150 milljarðar
Þegar leiðréttingin, niðurfærsla ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum þeirra sem voru með slík árin 2008 og 2009, var kynnt undir lok árs 2013 var einnig greint frá því að hluti hennar myndi snúast um skattfrelsi séreignarsparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól húsnæðislána. Samtals áttu heildaráhrif aðgerðanna að vera 150 milljarðar króna. Þ.e. 80 milljarðar króna í beinar höfuðstólslækkanir og 70 milljarðar króna vegna séreignasparnaðar sem notaður yrði til að greiða niður höfuðstól.
Kostnaður íslenska ríkisins vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar átti að vera um 20 milljarða króna. Þ.e. ríkið ætlaði að gefa eftir skatt sem annars hefði verið lagður á útgreiðslu séreignasparnaðar upp á þá upphæð gegn því að séreignin yrði notuð í að borga niður húsnæðislán. Því var búist við að Íslendingar með húsnæðislán og séreignarsparnað myndu ráðstafa um 50 milljörðum króna af sparnaði sínum inn á lánin á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, en heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði tekur til þess tímabils.
Lægri upphæðir en reiknað var með
Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra virðast færri hafa notfært sér séreignarsparnaðarleiðina en áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir. Þegar tímabilið sem leiðin er heimil er tæplega hálfnað hafa Íslendingar notað 12,4 milljarða króna af séreignasparnaði sínum til að greiða inn á húsnæðislán. Til að þau viðmið sem ríkið notaði í kynningum sínum á leiðréttingunni, þar sem séreignarhluti aðgerða stjórnvalda var metinn á 70 milljarða króna, gangi eftir munu Íslendingar þurfa að greiða 37,6 milljarða króna af séreignarsparnaði inn á húsnæðislán sín fram á mitt ár 2017, eða rúmlega þrefalda þá upphæð sem þeir hafa þegar greitt inn á húsnæðislánin.
Samtals hafa ríki og sveitarfélög veitt 5,1 milljarða króna í skattaafslátt vegna þessa. Miðað við kynningu á leiðréttingunni átti heildarumfang þess afsláttar að vera 20 milljarðar króna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.
Þá hafa sárafáir nýtt sér séreignarsparnaðarleiðina sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Samtals höfðu 482 aðilar nýtt sér þá leið í september og nemur heildarfjárhæðin 98 milljónum króna. Reiknaður skattafsláttur vegna hennar nemur um 40 milljónum króna.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra segir að nákvæmar fjöldatölur um þátttöku í úrræðum um greiðslu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán liggi því miður ekki fyrir eins og er vegna ónógra merkinga í kerfinu. Unnið sé að því að lagfæra það. „Gróflegt mat á fjöldatölum um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán er um 35.000. Umsóknirnar eru þó ekki allar virkar, bæði er nokkuð um að umsækjendur hafi hætt við en einnig er nokkuð um að umsóknum hafi verið synjað, t.d. vegna þess að lánið sem sótt er um að greiða inn á uppfyllir ekki skilyrði laganna“.