Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar að gera grein fyrir því á næstu dögum hvernig hann telji að „Ríkisútvarpið geti best náð markmiðum sínum sem við viljum að það uppfylli, hvernig það getur sinnt því hlutverki sem það gegnir í samfélaginu á sem farsælastan hátt og hvernig starfsemi Ríkisútvarpsins þarf að vera háttað til þess að svo megi verða“. Þetta kemur fram í grein sem Illugi skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar ræðir Illugi skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins (RÚV) sem nýverið kom út og þá upræðu sem sprottið hafi upp í kjölfari birtingu hennar um hlutverk og stöðu fyrirtækisins. Í nefndinni sátu Eyþór Arnalds, sem var formaður hennar, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG.
Illugi segir skýrsluna ekki hafna yfir gagnrýni þótt að mikilvægt sé að þær upplýsingar sem hún innihaldi hafi komið fram. Aðalatriðið varðandi framtíð RÚV sé þó ekki rekstrarvandi eða erfið skuldastaða. „Það sem mestu máli skiptir hvað framtíðina varðar er hið breytta neyslumynstur og tækniframfarir sem blasa við öllum fjölmiðlum. Áhorf á sjónvarp, einkum línulega dagskrá, hefur til að mynda dregist mjög mikið saman, mest í yngri aldurshópunum[...]Í ljósi þessa þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að sjá að óbreytt skipan mála, hvort sem er hjá Ríkisútvarpinu eða öðrum fjölmiðlum, er ekki meitluð í stein“.
Ætlar að leggja til óbreytt útvarpsgjald
Í skýrslu um RÚV, sem kynnt var í lok október, segir m.a. að áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, geri ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins og að lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV. Gangi þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Illugi hefur þegar staðfest að hann ætli að leggja fram frumvarp á þingi um að útvarpsgjaldið verði óbreytt á næsta ári. Hann segist hins vegar ekki hafa lagt til að lífeyrisskuldbindingum verði lyft af Ríkisútvarpinu.
Breytt neytendahegðun
Í skýrslu nefndarinnar um RÚV kom fram að hún taldi mikilvægt að endurskoða þjónustuhlutverk RÚV í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á neytendahegðun, sem koma meðal annars fram í miklum samdrætti í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sérstaklega hjá ungu fólki.
Í skýrslunni var birt skýringarmynd þar sem kemur fram að heildaráhorf fólks á Íslandi á aldrinum 18-49 ára á sjónvarp dróst saman á árunum 2009-2015 um tæp 36 prósent í heild og var samdrátturinn í áhorfi á línulega dagskrá 47 prósent. Alls hefur áhorf á sjónvarp minnkað um 28 prósent frá árinu 2009 og hjá RÚV hefur samdrátturinn verið tæp 18 prósent.
Samdráttur í áhorfi á fréttir 2009 – 2015 var tæp 17 prósent og enn meiri í aldurshópnum 18-49 ára, eða 32 prósent.