Á hlutafafundi CCP í dag var tilkynnt um fjárfestingu í fyrirtækinu upp á 30 milljónir Bandaríkjadala, eða um fjóra milljarða króna, sem efla mun starfsemi þess á sviði sýndarveruleika (e: Virtual reality, VR). Fjárfestingin er leidd af stærsta framtakssjóði heims; New Enterprise Associates (NEA), með þátttöku Novator Partners, fjárfestingafélags í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CCP.
Á hlutafafundinum voru jafnframt kynnt drög að samningi fyrirtækisins við Sturlugötu 6 ehf um nýbyggingu í Vatnsmýri sem hýsa mun nýjar starfsstöðvar fyrirtækisins á Íslandi á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands. Húsið mun jaframt hýsa fleiri fyrirtæki á sviði tækniþróunar og nýsköpunar. CCP tilkynnti um flutning starfsemi sinnar á Íslandi yfir í Vatnsmýri fyrr á árinu, þar sem jafnframt voru kynnt áform fyrirtækisins að styrkja og efla enn frekar samstarf þess við háskólasamfélagið og nýsköpunarfyrirtæki hérlendis.
„Þessi nýja fjárfesting verður nýtt til að styrkja enn frekar leiðandi stöðu CCP á sviði sýndarveruleika, nú þegar þessi nýja tækni er tekin að umbreyta afþreygingariðnaðinum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Harry Weller, einn af stjórnendum NEA, hefur tekið sæti í stjórn CCP auk þess sem annar fulltrúi NEA, Andrew Schoen, hefur tekið sæti varam anns í stjórn fyrirtækisins.
CCP hefur þegar tilkynnt um útgáfu á tveimur tölvuleikjum á sviði sýndarveruleika sem væntanlegir eru á næstu átta mánuðum; EVE Valkyriesem koma út fyrir Oculus Rift á PC næsta vor og fyrir PlayStation VR á PlaySation 4 á fyrri helming næsta árs, og Gunjack sem koma mun út fyrir Gear VR búnað Samsung síðar í þessum mánuði. Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP segir í tilkynningu að CCP ætli sér frekari landvinninga á sviði sýndarveruleika.
„Við höfum fylgst með starfsemi CCP um nokkur skeið. Reynsla fyrirtækisins af útgáfu EVE Online og brautryðjendastarf þess á sviði sýndarveruleika hefur komið fyrirtækinu í fremstu röð á þessum vettvangi, og við viljum vera samstarfsaðilar þess í enn frekari landvinningum á þessu sviði,“ segir Harry Weller einn af stjórnendum NEA.
CCP var stofnað árið 1997 í Reykjavík. Með útgáfu á sínum fyrsta tölvuleik EVE Online árið 2003 ávann fyrirtækið sér sess sem eitt framsæknasta fyrirtæki tölvuleikjageirans og hefur fyrirtækið hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leiki sína. Helstu hluthafar fyrirtækisins í dag eru Novator, General Catalyst og NEA.
NEA hefur lengi verið í fararbroddi i i fjárfestingum á sviði hátækni og heilsugæslu. Innan tæknigeirans hefur sjóðurinn meðal annars fjárfest í fyrirtækjum á sviði hugbúnaðargerðar, orkumála og neytendalausna á netinu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1977 og hefur fjárfest í um 650 fyrirtækjum í sex heimsálfum. Eignir hans eru metnar á rúmar 17 milljarða bandaríkjadala.
Nánari upplýsingar um CCP, NEA og Novator Partners, sem tilteknar eru í tilkynningu frá fyrirtækinu, má sjá hér að neðan.
CCP
CCP er framleiðandi fjölspilunar-tölvuleikjanna EVE Online og DUST 514 sem komið hafa út á PC/Mac og PlayStation 3, auk sýndarveruleika-leiksins Gunjack fyrir Samsung Gear VR. Fyrirtækið er einnig með sýndarveruleikaleikinn EVE: Valkyrie í þróun fyrir PC og PlayStation 4. Fyrirtækið var stofnað í Reykjavík árið 1997 og hjá því starfa rúmlega 300 manns á skrifstofum þess í Reykjavík, Shanghai, Atlanta og Newcastle.
NEA
New Enterprise Associates (NEA) er alþjóðlegur fjárfestingarsjóður á sviði framtaksfjárfestinga (e: venture capital firm) með skrifstofur í New York, Peking, Shanghai, Mumbai, Bangalore, Boston, Chicago, Timonium við Baltimore, Chevy Shase við Washington og Menlo Park við San Francisco. Félagið sérhæfir sig í fjárfestingum á sviði tækni- og heilsugæslu á ýmsum þróunarstgum fyrirtækja, um heim allan. Eignir sjóðsins eru í dag metnar á rúmar 17 milljón milljarða bandaríkjadala.
Novator Partners
Novator Partners er fjárfestingafélag með aðsetur í í London sem stýrt er af Björgólfi Thor Bjórgólfssyni. Síðustu 10 ár hefur Novator fjárfest í fjölda fyrirtækja innan síma-, lyfja- og tæknigeirans sem og í fasteignum og verkefnum á sviði endurnýtanlegrar orku.