Orkumálaráðherrar Norðurlandanna hafa óskað eftir áætlun og greinargerð um framtíðarmöguleika á orkumarkaði Norðurlanda. Alþjóðaorkumálastofnunin álítur löndin vera brautryðjendur í loftslagsmálum, samkvæmt skýrslu stofunarinnar sem birt var á mánudag.
Norðurlandaráð orkumálaráðherra hittust í Kaupmannahöfn á þriðjudag og ræddu norræna orkumarkaðinn og hvernig hægt er að tengja hann við orkumarkað Evrópusambandsins. Á vef Norðurlandaráðs segir að norræni markaðurinn er stærsti þverþjóðlegi orkumarkaður í heimi. Nú séu 100 ár síðan fyrsti raforkustrengurinn var lagður milli tveggja norðurlanda, þegar Danmörk og Svíþjóð tengdust árið 1915.
Maroš Šefčovič, framkvæmdastjóri orkumála innan Evrópusambandsins (ESB), fundaði einnig með norrænu ráðherrunum og lagði áherslu á að aukið samstarf nágrannaríkja væri nauðsynlegt svo mögulegt sé að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti.
„Við getum sýnt heiminum hvað hægt er að ávinna sér með samvinnu milli nágrannaríkja í stað einangrunar,“ er haft eftir Lars Christian Lilleholt, orkumálaráðherra Danmerkur, á vef Norðurlandaráðs. „Margir líta til Norðurlandanna sem uppskrift fyrir Evrópu þegar kemur að vistvænni orku.“
Áætlunin og greinargerðin um framtíðarmöguleika á orkumarkaði Norðurlanda verður unnin á komandi ári og rædd á næsta fundi orkumálaráðherra Norðurlanda haustið 2016.
Á loftslagsráðstefnunni COP21 í París í desember mun Noðurlandaráð vera með sérstakan skála þar sem verður umræðuvettvangur sendinefnda Norðurlandanna og aðgengi fyrir fjölmiðlafólk. Noðurlandaráð hefur gefið það út að orkumál verði í brennidepli í umræðum sínum á ráðstefnunni og það sem ríkin ætla einna helst að leggja fram.