Það er mikilvægt að staldra við góðar fréttir sem gefa vísbendingu um jákvæða þróun þegar uppbygging þekkingariðnaðar, sem byggir á hugvitinu örðu fremur, er annars vegar. Tvær slíkar fréttir hafa nú komið fram á jafnmörgum dögum.
Sprotafyrirtækið Sólfar Studios tilkynnti um það í gær, að það hefði samið um fjármögnun upp á tæplega 300 milljónir króna til að þróa starfsemi sína á sviði sýndarveruleika áfram. Í apríl síðastliðnum tók Kjarninn stofnendur fyrirtækisins tali, en þeir hafa allir verið á meðal þeirra sem byggt hafa fyrirtækið CCP upp. Þá töluðu þeir um að hverfa aftur í bílskúrinn og hefja frumkvöðlastarfið alveg frá grunni. Ljóst er að þeir stöldruðu ekki lengi við í bílskúrnum, og mikið uppbyggingarstarf er greinilega framundan.
Í dag kom síðan önnur jákvæð frétt, þar sem sýndarveruleiki kemur við sögu. Tilkynnt var um það á hluthafafundi CCP í dag að stærsti framtakssjóður heims, New Enterprise Associates, með þátttöku Novator Partners, fjárfestingafélags í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði ákveðið að leggja félaginu til fjóra milljarða króna. Veðjað er á sýndarveruleikann í þessari fjárfestingu.
Saga CCP hefur verið saga mikillar rússíbanareiðar frá upphafi. Mikilla sigra en líka erfiðleika, eins og Hilmar Veigar Pétursson forstjóri, hefur greint frá sjálfur. En þessi nýjustu tíðindi sýna hversu mikil þekking hefur byggst upp innan fyrirtækisins á krefjandi hliðum tölvuleikjaiðnaðarins.
Hverfum nú aðeins vestur um haf, svona eins og við séum í sýndarveruleika.
Í Seattle í Bandríkjunum er stundum talað um „Microsoft áhrifin“ á allt nærsamfélagið í borginni, vegna þess að stofnendur hugbúnaðarrisans, Bill Gates og Paul Allen, ákváðu að byggja höfuðstöðvar fyrirtækisins upp á sínum heimaslóðum. Þúsundir starfsmanna með góða menntun hafa mikil áhrif á borgina og mannlífið fyrir vikið.
Að mörgu leyti virðist það órökrétt að hafa höfuðstöðvarnar þarna, þar sem hjartað í hugbúnaðargeiranum er stundum sagt slá í Sílikondalnum eða annars staðar fjarri Seattle borg.
Hver veit nema að í framtíðinni verði talað um CCP áhrifin í Reykjavík. Fyrirtækið hefur með sköpunarkrafti starfsmanna haft mikil áhrif á frumkvöðlastarfsemi á Íslandi, og þessi nýjustu tíðindi virðast benda til þess að ný áhrifabylgja kunni að vera að byggjast upp. En ekkert er sjálfsagt í heimi hugbúnaðarins, svo mikið er víst. Full þörf er á því að íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld fylgist grannt með því, hvernig mögulega megi fjölga fyrirtækjum eins og CCP, og Sólfar Studios, hér á landi. Ekki bara vegna þess að starfsfólk þess er með góða menntun og starfsemin alþjóðleg, heldur ekki síður vegna þess að það hljómar næstum of gott til að vera satt, að geta vaxið inn í sýndarveruleika. Þar eru möguleikarnir næstum endalausir...