Það er svartaþoka í stærstu borgum í norðanverðu Kína. Um er að ræða stæka mengunarmóðu sem, samkvæmt viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, getur gert loftgæðin allt að 50 sinnum verri en talið er vera heilsuspillandi.
Sífeld loftmengun í Kína er vanalega verst á veturnar þegar kolabrennsla nær hámarki til þess að framleiða orku til húshitunar, svo dæmi sé tekið. Þessi mikla mengun hefur verið tengd mörghundruð þúsund ótímabærum dauðsföllum og verið sögð ein ástæða óánægju í garð kommúnistaflokksins sem öllu ræður í Kína. Í myndbandinu frá Reuters-fréttastofunni hér að neðan má sjá hversu þykk mengunarmóðan er.
Reuters: Mengunarteppi yfir borgum Kína
Í borginni Changchun búa um átta milljónir manna en þar hefur mengunarmóðan verið svo þykk að magn svifryks mældist 860 míkrógrömm á hvern rúmmeter. Alþjóðaheilbriðisstofnunin segir að sólarhringsmeðaltal yfir 25 míkrógrömmum sé heilsuspillandi fyrir fólk. Til samanburðar þá var magn svifryks í Reykjavík, nánar tiltekið við Grensásveg 3,05 míkrógrömm á rúmmeter, í hádeginu í dag.
Fréttir bárust af því fyrr í þessum mánuði að Kína hafi brennt 17 prósent meira af kolum en stjórnvöld þar í landi höfðu áður gefið upp. Það þýðir að Kínverjar losa nærri milljarð tonna meira af koltvíoxíði út í andrúmsloftið en áður var reiknað með. Kína hefur tekið fram úr Bandaríkjunum sem stærsta mengunarland heims og situr nú fast á toppi listans, með nærri tvöfalt meiri útblástur.
Á myndbandinu hér að neðan má sjá gögn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, um uppruna kolefnis í andrúmslofti jarðar. Gagnanna var aflað frá ágúst 2006 til apríl 2007. Síðan þá hefur útblástur Kína aukist gríðarlega. Einungis tveimur árum síðar blés Kína nærri átta milljörðum tonna af koltvíoxíði, miðað við nærri sex milljarða tonna árið 2006. Fylgist með hvíta reyknum sem myndast við strendur Kína.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst 30. nóvember í París. Þar er markmiðið að komast að lagaalega bindandi samkomulagi um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.