Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn bara hugsa um daginn í dag og „gleðjast yfir því svigrúmi sem þeir nú fá til að gera vinum sínum greiða og búa til nýjar skammtímalausnir til að kaupa sér fylgi í næstu kosningum“. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eina flokkinn á Íslandi sem standi í vegi fyrir breytingum á stjórnarskránni og að það væri „tilhlökkunarefni“ fyrir Samfylkingarfólk að komast aftur að stjórn landsins eftir næstu kosningar. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Árna Páls á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fram fer á Akranesi í dag.
Samfylkingin mælist nú með rúmlega átta prósent fylgi í skoðanakönnunum.
Segir Sjálfstæðisflokkinn standa í vegi fyrir stjórnarskrárbreytingum
Í ræðunni sagði Árni Páll að stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi viljað setja fulltrúa allra flokka í nefnd til að vinna að stjórnarskrármálinu, eftir að ekki tókst að klára afgreiðslu þess í tíð síðustu ríkisstjórnar. „Við höfum tekið þátt í þeirri vinnu og fulltrúar allra flokka hafa unnið af heilindum að mikilvægum þáttum stjórnarskrárbreytinga allt þetta kjörtímabil, með það að markmiði að þjóðin gæti greitt um þær atkvæði samhliða forsetakosningum í vor. Valgerður Bjarnadóttir hefur leitt vinnuna af okkur hálfu af einurð. Við höfum lagt höfuðáherslu á að margítrekaður þjóðarvilji um þjóðareign á auðlindum og rétt almennings til að kalla mál til þjóðaratkvæðagreiðslu verði viðurkenndur í stjórnarskrá.
Sú athyglisverða staða er nú komin upp að allir flokkar hafa náð saman um þessa meginþætti, nema einn neitar að loka samkomulaginu og er vísvitandi að tefla málinu í tímahrak. Það er Sjálfstæðisflokkurinn. Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru og skila skömminni þangað sem hún á heima.“
Árni Páll sagði að nú væru Íslendingar að upplifa atburðarás sem væri skólabókardæmi um af hverju stjórnmál nútímans njóti ekki trausts. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað ákvæði um þjóðareign á auðlindum í heil tuttugu ár. Allir muna loforðin skýru um þjóðaratkvæði um aðildarumsóknina fyrir síðustu kosningar, sem síðar var svikið af meiri einurð en nokkuð annað kosningaloforð í síðari tíma stjórnmálasögu. Íhaldsflokkur Íslands er að falla á tíma.“
Hlakkar til að taka aftur við stjórn landsins þrátt fyrir lítið fylgi
Í ræðu sinni sagðist Árni Páll meðvitaður um að það væri erfitt að koma á flokksstjórnarfund þegar fylgi flokksins mælist átta prósent, líkt og það mældist í síðustu könnun Fréttablaðsins sem birt var í liðinni viku. Hann sagði það samt sem áður vera Samfylkingarfólki „tilhlökkunarefni að koma á nýjan leik að stjórn landsins eftir næstu kosningar. „Við þurfum ekki að breyta Íslandi í Singapore norðursins eða eitthvað annað gósenland misskiptingar og mannvonsku. Þvert á móti: Fólk flýr Ísland þrátt fyrir gott efnahagsástand til að fá að búa við þau samfélagsgæði sem sósíaldemókratísk forgangsröðun hefur skilað í okkar næstu nágrannalöndum. Það þarf að setja heimilin í fyrsta sæti. Ef það er eitthvað sem við þurfum er það því „framsókn fyrir heimilin“. Framsókn er bara ekki að bjóða upp á hana og skilur ekkert í af hverju fólk er að flytja.
Framsókn og öðrum til upplýsingar, þá lýsir fólk í nágrannalöndunum lífi sem er allt öðru vísi en daglegt líf á Íslandi. Fólk býr þar við aðstæður sem núverandi ríkisstjórn er staðráðin í að bjóða ekki upp á hér: Hærri laun en í sambærilegu starfi hér og styttri vinnutími, húsnæðislán, sem lækka þegar er borgað af þeimm öruggt leiguhúsnæði, húsnæðislánavextir upp á minna en 2 prósent án nokkurrar verðtryggingar, fæðingarorlof upp á 12-18 mánuði, sem tryggir samvistir við börn og alvöru fjölskyldulíf, heilbrigðiskerfið rekið fyrir skattfé og þú borgar lítið sem ekkert ef þú þarft þjónustu og lægra matarverð.
Fólk á ekki að þurfa að flytja út til að njóta þessara gæða, við getum einsett okkur að flytja þetta ástand inn. Það hafa aðrar norrænar þjóðir gert, undir forystu jafnaðarmanna. Það getum við gert líka."
Stjórnarflokkarnir vilja gera vinum sínum greiða
Árni Páll sagði ríkisstjórnarflokkanna hugsa um daginn í dag og gleðjast yfir því svigrúmi sem þeir séu nú fá „til að gera vinum sínum greiða og búa til nýjar skammtímalausnir til að kaupa sér fylgi í næstu kosningum“. „Þeir munu koma með einhverja nýja tillögu: Greiðsla til þessa hóps eða hins sem brennur svo upp í verðbólgu, rétt eins og skuldaniðurfellingin gerði. Forsendan er samt að það takist að halda landinu lokuðu: Þess vegna má ekki ræða nýjan gjaldmiðil. Þess vegna hefur Sigmundur haldið allar ræðurnar um skaðsemi erlendrar fjárfestingar og þess vegna eru þeir þegar búnir að senda vikapilta sína af stað til að lýsa því hversu skelfilegt það væri ef erlendir aðilar myndu kaupa eins og einn banka. Auðvitað. Þá kæmi alvöruverðtilboð sem gæti hækkað verðið og komið í veg fyrir að þeir geti úthlutað bönkunum til vina sinna á lágmarksverði. Þess vegna má heldur ekki rannsaka einkavæðingu bankanna. Samkeppni er alltaf eitthvað svo pirrandi hvort sem er.“