Lestur dagblaða landsins stóð í stað á milli september og októbermánaðar. Breytingar á lestrinum eru það litlar að þær eru langt innan skekkjumarka. Fréttablaðið, stærsta dagblað landsins, mælist með 50 prósent lestur í aldurshópnum 12-80 ára. Þrátt fyrir að lestur blaðsins hafi minnkað hratt síðustu ár þá ber það enn höfuð og herðar yfir önnur blöð þegar kemur að lestri. Vert er að taka fram að Fréttablaðinu er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar. Þetta kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup sem birt var í gær.
Lestur DV og Viðskiptablaðsins hækkaði lítillega í síðasta mánuði en sú hækkun er innan skekkjumarka. Viðskiptablaðið er eini prentmiðill landsins sem virðist halda nokkuð stöðugum lestri þegar horft er yfir lengra tímabil. Sú þróun er í takt við það sem gerst hefur hjá sérhæfðari syllumiðlum í öðrum löndum, t.d. viðskiptablaðinu Börsen í Danmörku.
Lækkandi lestrartölur
Fréttatíminn stendur nánast í stað í lestri. Alls lesa 36,4 prósent landsmanna á aldrinum 12-80 ára fríblaðið, sem er prentað í 82 þúsund eintökum einu sinni í viku og dreift í hús. Blaðið var fyrst með í mælingum Gallup í mars 2011 og mældist þá með tæplega 42 prósent lestur. Síðan þá hefur lesturinn rokkað töluvert en Fréttatíminn virtist á mikilli siglingu í upphafi árs, á sama tíma og aðrir miðlar með stórt upplag voru í frjálsu falli. Í mars síðastliðnum mældist lestur hans 40,57 prósent. Fréttatíminn hefur aldrei mælst með jafn lítinn lestur og blaðið er að mælast með síðastliðna mánuði.
Sömu sögu er að segja af Morgunblaðinu, stærsta áskriftarblaði landsins. Það mælist nú með 28,2 prósent lestur. Lesendum Morgunblaðsins hefur fækkað um 35 prósent á sex árum.