Rúmlega hundrað íslensk fyrirtæki undirrituðu yfirlýsingu um samfélagslega ábyrgð og gagnvart umhverfinu í Höfða í dag. Yfirlýsingin og undirskriftirnar 103 verða afhentar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í byrjun desember. Íslensk stjórnvöld hafa skilað markmiðum sínum til Sameinuðu þjóðanna.
Meðal þeirra fyrirtækja sem undirrituðu yfirlýsinguna eru nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins sem reka fjölmenna vinnustaði. Þarna má finna viðskiptabankana þrjá, Alcoa Fjarðaál, stærstu skipa- og útgerðarfyrirtæki, ríkisstofnanir og háskólar. Lista yfir öll fyrirtækin má finna hér.
Á vef Reykjavíkurborgar segir um verkefnið að það sé hvatning til rekstaraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin forsendum „og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu“. Reykjavíkurborg og Festa eiga frumkvæði að verkefninu sem kynnt var í október. Reykjavíkurborg ætlar að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum um 35 prósent til ársins 2020 og unnið er að stefnumótun innan borgarinnar í þessum málaflokki.
Í samtali í Þukli í Hlaðvarpi Kjarnans í síðustu viku segir Svavar Svavarsson, deildarstjóri viðskiptaþróunar HB Granda, að fyrirtækið sé þegar farið að bregðast við þróun mála. „Það má eiginlega segja það að meðvitað og ómeðvitað þá höfum við verið að bregðast við súrnun sjávar,“ segir Svavar og vísar þar til þess vanda sem talinn er helst steðja að sjávarútvegi á Íslandi. HB Grandi er eitt þeirra fyrirtækja sem undirritaði yfirlýsinguna í dag. Hlusta má á samtalið við Svavar í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
„Ég er ekki nokkrum vafa um vilja íslenskra stjórnvalda til þess að sjávarútvegurinn mengi minna,“ segir Svavar spurður út í það hvort ríkið hafi sett upp einhverja hvata fyrir fyrirtæki eins og HB Granda til þess að menga minna. „Það er alveg án tillits til pólitískra flokka eða því líkt. Hins vegar teljum við að stjórnvöld mættu gera af því meira að ganga framfyrir skjöldu og hvetja sjávarútvegsfyrirtæki til þess að draga úr mengun hjá sér; til dæmis með breyttri löggjöf.“
Í tengslum við sjávarútveginn þá telur Svavar stjórnvöld og sjávarútveg verða að gera með sér heildstætt samkomulag um umhverfismál. „Hvernig ætlum við að reka sjávarútveg í framtíðinni? Ætlum við að keyra hann á hreinni orku eða ætlum við halda áfram að brenna olíu?“ spyr Svavar.
Með yfirlýsingunni sem fyrirtækin skrifuðu undir skuldbinda fyrirtækin sig til að uppfylla þrjú atriði. Þau eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og að mæla árangurinn af þessum aðgerðum og tilkynna reglulega um stöðu mála.
Í yfirlýsingunni segir að „borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.“