Atlaga var gerð að einstökum vefsíðum á Íslandi í síðustu viku. Upplýsingum var dreift á internetinu þess efnis að um væri að ræða skipulagðar árásir Anonymous samtakanna á Ísland vegna hvalveiða Íslendinga.
Atlagan olli miklum truflunum á netþjónustu og þjónustuaðilar tilkynntu viðskiptavinum sínum um þær fyrir helgi. Á meðal þeirra síðna sem meðlimir sem segjast tengjast Anonymous hreykja sér af á Twitter að hafa náð að loka tímabundið fyrir erlendri umferð eru síða forsætisráðuneytisins, Mbl.is, Símans, Menn.is, Iceland.is og Visiticeland.is.
Samkvæmt upplýsingum frá Símanum, sem á netþjónustufyrirtækið Sensa, lágmarkaði Sensa áhrif atlagnanna á viðskiptavini sína. Sensa upplýsti CERT-ÍS, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), um málið fyrir helgi.
Anonymous eru nokkurs konar lausleg regnhlífarsamtök aðgerðarsinna og hakkara út um allan heim.
Stýrðu umferð inn á vefsíður í því magni að þær lágu niðri
Tækniborð Sensa sendi skilaboð á viðskiptavini sína á föstudag þar sem sagt var frá því að nettruflanir sem hefðu verið í gangi í síðustu viku hefðu verið umfangsmeiri en talið væri í fyrstu. Í skilaboðunum, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir einnig: „Upplýsingum hefur verið deilt á internetinu þess efnis að um sé að ræða skipulagðar árásir „Anonymous“ hópsins vegna stuðnings Íslands við hvalveiðar. Tæknimenn Sensa eru á staðnum að verjast þessu á ástandi og vinna að lausn. Flókið getur verið að verjast slíkum árásum og erfitt er að vita hversu lengi ástandið varir. Búast má við þjónustutruflunum eða þjónusturofi. Tilkynningar munu berast um stöðuna eftir atvikum. Við þökkum fyrir sýnda biðlund“.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Símans, eiganda Sensa, um málið. Í svari upplýsingafulltrúa hans segir að Sensa hafi upplýst viðskiptavini sína á föstudag um truflanir á netþjónustu í kjölfar „atlaga að einstaka vefsíðum hér á landi. Tæknimenn Sensa lágmörkuðu áhrif þeirra og eru á vaktinni verði vart við meiri slíka umferð“.
Síminn segir atlögur á netinu af þessu tagi snúast um að stýra umferð inn á vefsíður í því magni að þær taka ekki lengur við heimsóknum og liggja því niðri.
Sensa upplýsti CERT-ÍS, netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, um málið. Hjá CERT-ís fengust þær upplýsingar að sveitin viti af málinu.
Upplýstu um aðgerðir á Twitter
Upplýsingum um aðgerð Anonymous vegna hvalveiða Íslendinga, sem kallast #OpWhales, hefur verið dreift á samfélagsmiðlinum Twitter. Þar kemur meðal annars fram að síða forsætisráðuneytis Íslands hafi ekki verið aðgengileg erlendis frá um tíma í síðustu viku vegna árásar á hana frá þeim sem stóðu að aðgerðinni.
Aðrar síður sem Anonymous-meðlimir hreyktu sér af því að hafa ráðist á voru:
Iceland.is:
Mbl.is:
Síminn.is:
Menn.is:
Visiticeland.is: