Tveir af hverjum þremur Íslendingum (65 prósent) á aldrinum 18-49 ára sem tekur afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju er fylgjandi honum. Hjá þeim sem eru 50 ára og eldri, og taka afstöðu, eru fleiri á móti aðskilnaði (57 prósent) en fylgjandi honum (43 prósent). Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Fréttablaðið birti dag.
Niðurstöðurnar sýna að tæplega helmingur Íslendinga, 48 prósent, styður aðskilnað ríkis og kirkju, 39 prósent eru andvígir, tólf prósent óákveðnir og tvö prósent svara ekki. Þegar allir aðspurðir sem tóku afstöðu eru taldir saman voru 55 prósent þeirra fylgjandi aðskilnaði en 45 prósent á móti. Mun fleiri karlar eru fylgjandi aðskilnaði en konur en meirihluti er fyrir aðskilnaði hjá báðum kynjum, þegar horft er einvörðungu á þá sem tóku afstöðu.
Könnunin var gerð eftir lagskiptu úrtaki og var svarhlutfall 65,8 prósent.
Niðurstöður könnunar Fréttablaðsins sýna töluvert aðra niðurstöðu en könnun Gallup, sem birt var í október. Samkvæmt henni sögðust mun fleiri, eða 55,5 prósent landsmanna , vera hlynntir aðskilnaði og að stuðningur hefði aukist töluvert á milli ára. Könnunin sýndi einnig að 23,9 prósent landsmanna voru andvígir aðskilnaði. Stuðningur við aðskilnað var mestur hjá stuðningsmönnum Pírata en minnstur hjá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna.
Þjóðkirkjan hefur átt í vök að verjast í almennri umræðu undanfarin ár vegna ásakana um kynferðisbrot innan kirkjunnar, andstöðu hluta hennar gegn einum hjúskaparlögum þar sem hjónaband er skilgreint milli tveggja einstaklinga, ekki manns og konu, og hins svokallaða samviskufrelsis presta til að meina samkynhneigðum að giftast í kirkju. Auk þess hefur verið mikið umræða um þann kostnað sem ríkið ber af rekstri Þjóðkirkju, en alls fara um fimm milljarðar króna af skattfé og sóknargjöldum á ári í að reka þá starfsemi sem Þjóðkirkjan sinnir.
Íslendingum sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna hefur hefur fækkað jafn og þétt á undanförnum árum. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Í dag er það hlutfall 73,8 prósent. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan Þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í byrjun þessa árs voru þeir 86.357 talsins. Þeim hefur því fjölgað um rúmlega 55 þúsund á 15 árum.