Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, hafnar því alfarið að hafa brotið gegn lögum eins og ákæra í hinu svokallaða Stím-máli gerir ráð fyrir, en aðalmeðferð hófst í málinu í dag. Í ítarlegri greinargerð fyrir hans hönd, sem Óttar Pálsson hrl. lögmaður hans tók saman, er málatilbúnaður sérstaks saksóknara gagnrýndur harðlega.
„Samantekið þá er rangt að ákærði hafi staðið að þeirri lánveitingu sem ákært er vegna á allt öðrum forsendum en samþykkt hafi verið í áhættunefnd bankans. Í ákæru er beinlínis lagt til grundvallar að áhættunefnd bankans hafi tekið ákvörðun um að veita lánið. Ekki hefur verið gert líklegt að lánveitingin hafi falið í sér brot gegn ákvæðum í lánareglum Glitnis um tryggingar. Nettó fjárstreymi til Glitnis vegna Stím-viðskiptanna var jákvætt um a,m,k. 2.350 milljónir króna. Ákvörðun um að lána Stím var ótvírætt til þess fallin að draga úr fjárhagslegri áhættu bankans og bæta eiginfjárstöðu hans. Ákæruvaldið hefur ekki með neinu móti gert sennilegt að ákvörðunin, sem háð var viðskiptalegu mati ákærða og annarra nefndarmanna í áhættunefnd, hafi verið óforsvaranleg,“ segir meðal annars í samantektarorðum í greinargerðinni.
Tugmilljarða lán til Stím
Málið snýst annars vegar um tugmilljarða króna lánveitingar til félagsins Stím ehf., í nóvember 2007 og janúar 2008. Mál ákæruvaldsins byggir meðal annars á því, að Stím hafi verið búið til af starfsmönnum Glitnis í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum og stærsta eiganda hans, FL Group, sem bankinn sat síðan uppi með á veltubók sinni. Enginn markaður var fyrir bréfin á því verði sem Stím greiddi fyrir þau, samkvæmt málatilbúnaði ákæruvaldsins.
Í málinu eru ákærðir, auk Lárusar, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital. Þeir neita allir alfarið sök, en Lárus og Jóhannes eru ákærðir fyrir umboðssvik og Þorvaldur fyrir hlutdeild í þeim. Ákæruna í málinu má lesa í heild sinni hér.
Grundvallarmisskilningur
Óttar segir í greinargerð sinni að sérstakur saksóknari misskilji aðstæðurnar og ástæðurnar að baki viðskiptum Stím. Þá verði enn fremur að horfa til þess, að aðkoma Lárusar í málinu, hafi öðru fremur verið á því byggð að draga úr fjárhagslegri áhættu Glitnis, að því er segir í greinargerðinni. „Samkvæmt þessu [Því sem að framan er rakið í greinargerð] hníga augljós rök að því að sú leið sem farin var, þ,e. að draga úr fjárhagslegri áhættu sem bréfunum fylgdi með því að láta aðra um að fjármagna eignarhaldið að hluta, hafi, á þeim tímapunkti sem ákvörðunin var tekin, verið vænlegri til að draga úr fjárhagslegri áhættu bankans heldur en að selja bréfin á markaði með tapi. Því er það ekki aðeins svo að ákærði, ásamt öðrum, hafi umfram lagaskyldu dregið úr tjárhagslegri áhættu Glitnis með Stím viðskiptunum, heldur hafi hann einnig valið þann kost af tveimur tækum, sem betur var til þess fallinn að tryggja hagsmuni bankans,“ segir í greinargerð Óttars, sem hér er birt í heild sinni.
Allir ákærðu mættu í dómsal í morgun, þegar aðalmeðferð hófst, en gert er ráð fyrir að hún standi yfir alla þessa viku.