Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að frumvarp Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, um niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ), sé versta þingmál sem hann muni eftir í 25 ár eða aldarfjórðung. Engin rök hafi verið færð fram fyrir því að leggja niður stofnunina, sem hafi gegnt mikilvægu hlutverki og sé fyrirmyndar samkvæmt Ríkisendurskoðun. Þetta kemur fram á Facebook síðu Össurar, þar sem hann segir hugmyndina um niðurlagningu stofnunarinnar vera hugaefni embættismanna.
Hann segir að stofnunin hafi lagt til mikilvæga sérfræðiþekkingu á alþjóðavettvangi um árabil, og meðal annars haft áhrif á það að alþjóðastofnanir hafi lagt mikla fjármuni í verkefni þar sem Íslandi hafi komið að framkvæmd mála.
„Þegar búið er að slá stofnunina af á að flytja verkefnin inn á skrifstofu Gunnars Braga. Þetta er í algerri andstöðu við skýrar leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar um að framkvæmd og eftirlit á ekki að vera á sömu hendi. Gagnsæi – samtök gegn spillingu – benda á að þetta fyrirkomulag er hættulegt. Í umsögnum samtaka einsog ASÍ er bent á að í frumvarpinu eru að finna hreinar rangfærslur.
Engin fjárhagsleg rök hafa heldur verið færð fyrir niðurlagningunni. Fjármálaráðuneytið segir að ekkert sparist við hana. Auðvelt er að sýna fram á að kostnaðurinn mun – amk. tímabundið – líklega aukast.
ÞSSÍ hefur hvarvetna hlotið einróma lof fyrir rekstur og störf. Ríkisendurskoðun lítur á hana sem fyrirmyndarstofnun. Stofnunin hefur vakið athygli á alþjóðavísu fyrir nýmæli í starfi, og fyrir vikið verið boðið allt að þúsund milljónum frá erlendum stofnunum í íslensk verkefni. Það eru semsagt engin rök fyrir því að leggja stofnunina niður. Hrossakaupin sem Gunnar Bragi hefur gert við Sjálfstæðisflokkinn til að ná málinu fram eru pólitískur skítadíll,“ segir Össur á síðu sinni.
Gunnar Bragi hefur svarað því til að verkefnin sem ÞSSÍ hefur sinnt séu ekki að fara neitt, heldur standi þvert á móti til að skipuleggja starfið betur til þess að auka skilvirkni og tryggja betur faglegt starf. Ákvörðunin og niðurlagninguna sé liður í þeirri stefnumörkun.