Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur afleitt að læknar fái ekki laun í samræmi við menntun sína og starf. Þetta segir hún í samtali sínu við Gretti Gautason í þættinum Grettistaki sem birtist í Hlaðvarpi Kjarnans á morgun. „Það er bara ekki nógu gott,“ segir hún en bætir við að það sé ekki hægt að gera upp á milli starfstétta og segja að ein starfstétt sé mikilvægari en önnur.
Grettir spyr hvað henni finnst um að prestar fái jafnan hærri laun en læknar. Agnes segist ekki vera sammála því að menntun og starf presta sé minna virði en starf lækna. Hún telur alla vera jafn mikilvæga. „Erum við bara ekki öll jafn mikilvæg? Við erum bara í ákveðnum hlutverkum í lífinu. Við höfum öll ákveðna köllun í lífinu og við þurfum öll á hvort öðru að halda."
„Stundum þurfum við á lækni að halda, stundum þurfum við á pípara að halda, stundum þurfum við á kennara að halda og stundum þurfum við á presti að halda. Ég sé ekki að eitthvað starf eða þjónusta sé minna virði en eitthvað annað. Við þurfum allt þetta […] og miklu meira til.“
Hún segir það hins vegar afleitt að þegar fólk er búið að leggja mikla vinnu í að mennta sig að það fái ekki laun sem hæfa menntun sinni. „Það er náttúrlega alveg afleitt þegar fólk er búið að leggja á sig mikla vinnu, og eyða miklum tíma, og leggja sig fram til þess að mennta sig í fagi eins og læknisfræði að það skuli ekki fá almennileg laun. Það er bara ekki nógu gott“
Grettistak er á dagskrá Hlaðvarps Kjarnans annan hvern sunnudag.