Fjáraukalög ársins 2015 gera ráð fyrir því að þjóðkirkjan fái 370 milljóna króna aukafjárveitingu á árinu 2015. Auk þess er gert ráð fyrir því að aukið fé fari einnig til þjóðkirkjunnar á árinu 2016. Þessar fjárveitingar eru til þess að virða samning kirkju og ríkis frá tíunda áratug síðustu aldar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir einnig að breytingatillögur við fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, nemi samstals 6,7 milljörðum króna. Fjárlaganefnd fékk frumvarpið með breytingartillögum til meðferðar í gær ásamt fjáraukalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í Fréttablaðinu segir að samkvæmt því eigi að bjóða út þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2016 og er gert ráð fyrir 70 milljóna króna greiðslu í húsaleigu vegna þriggja einkarekinna heilsugæslustöðva. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir þó í samtali við blaðið að ekkert hafi verið ákveðið með rekstrarform þeirra heilsugæslustöðva sem ráðast á í að koma upp á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Orðalag breytingartillögunnar sé ónákvæmt.
Mikill fjöldi breytingatillagna hefur verið gerður frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir því að ein slík breyting sé 165 milljóna króna fjárveiting til forsætisráðuneytisins vegna umdeildra laga um verndarsvæði í byggð, en þau voru samþykkt á síðasta þingi. Markmiðið með lögunum er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi, og samkvæmt þeim er það forsætisráðherra sem tekur ákvörðun um að gera byggð að verndarsvæði, en ekki sveitarfélögin sem byggðin er í. Þau hafa verið harðlega gagnrýnd, til dæmis af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Lögunum var meðal annars beitt til að skyndifriða hafnargarð í Reykjavík í haust.