Héraðsdómur Suðurlands ógilti með dómi sem féll í gær tvær ákvarðanir meirihluta hluthafa í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, sem er á meðal fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins, um samruna útgerðarfélagsins Ufsabergs við hana og ákvörðun um að auka hlutafé Vinnslustöðvarinnar. Ákvarðanirnar voru teknar þann 8. október 2014 og voru eigendur Stillu, sem á minnihluta í Vinnslustöðinni, á því að viðskiptin sem þær snérust um myndu valda Vinnslustöðinni tjóni.
Eigendurnir, bræðurnir Guðmundur (kenndur við Brim) og Hjálmar Kristjánssynir, töldu að Vinnslustöðin væri allt of lágt metin í viðskiptunum og að ákvarðanirnar hafi ekki verið teknar með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Þetta er í annað sinn sem dómstólar fjalla um samruna fyrirtækjanna en árið 2013 ógilti Hæstiréttur Íslands sameiningu félaganna.
Áralangar deilur
Stilla á ríflega 30 prósent hlut í Vinnslustöðinni og hafa átök staðið yfir á milli þeirra og hóp Vestmannaeyinga, sem á tæplega 70 prósent hlut í fyrirtækinu, í áraráðir. Vinnslustöðin keypti upphaflega hluti í Ufsabergi á árunum 2008 og 2011 gegn vilja Stillu sem fór með málið fyrir dómstóla. Í mars 2013 ógilti Hæstiréttur samruna félaganna. Í kjölfarið var ný samrunaáætlun samþykkt á hluthafafundi 8. október 2014, sem Stillu-bræður sættu sig ekki við. Þeir fóru því á ný með málið fyrir dómstóla og unnu það mál í gær í héraði.
Í fréttatilkynningu sem Stilla hefur sent frá sér vegna dómsins kemur fram að héraðsdómur Suðurlands hafi nú ógilt samrunann með sömu rökum og Hæstiréttur gerði árið 2013. „Fulltrúar Stillu töldu nauðsynlegt að fá svar dómstóla við því hvort meirihluti hluthafa og stjórnar Vinnslustöðvarinnar væru að brjóta á rétti minnihlutans. Nú liggur fyrir staðfesting tveggja dómsstiga á því að svo hafi verið,“ segir í tilkynningunni.
Vilja að ráðuneytið skipi rannsóknarmenn
Í henni kemur einnig fram að í framhaldi af aðalfundi Vinnslustöðarinnar í júní síðastliðnum hafi Stilla óskað eftir því við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, „með vísan í þau réttindi sem minnihluta hluthafa eru tryggð í hlutafélagalögum, að ráðherra skipi rannsóknarmenn til þess að skoða viðskipti meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar og eigenda Ufsabergs útgerðar. Nú er þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins beðið“.
Stilla útgerð hefur einnig óskað eftir því að Ársreikingaskrá framlengi úrskurð sinn um að skipa auka endurskoðendur til að vinna með kjörnum endurskoðendum í félaginu m.a. vegna þessara viðskipta. „Ársreikningaskrá hefur á síðustu tveimur árum fallist á þessi sjónarmið og er nú beðið niðurstöðu um áframhaldandi skipan auka endurskoðanda fyrir Vinnslustöðina“.