Sigumundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að þar til bær yfirvöld hérlendis séu að skoða að efla landamæraeftirlit á Íslandi. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París telur forsætisráðherra eðlilegt að sá möguleiki sé skoðaður. „Það segir sig í rauninni sjálft að þegar ytri landamæri þessa svæðis, sem átti að heita að vera opið innbyrðis, virka ekki breytir það forsendum um opin landamær. Við getum auðvitað ekki verið í þeirri stöðu hér á Íslandi að það sé alveg opið hingað frá tilteknum löndum í Evrópu á meðan það er lokað á straum frá þessum sömu löndum annars staðar í Evrópu,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við Morgunblaðið.
Þar segir hann líka að umræðan um Schengen-samstarfið hér á landi sé sérkennileg og horft hafi verið framhjá því sem raunverulega sé að gerast á Schengen-svæðinu. Sigmundur Davíð segist ekki hafa áhyggjur af því að upplýsingastreymi lögregluyfirvalda frá löndum á Schengen-svæðinu til Íslands verði takmarkaðra en það er nú ef Ísland hyrfi úr Schengen.
Sigmundur Davíð segir við Morgunblaðið að hann hafi aldrei haft sterka sannfæringu fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. „Framtíð Schengen-samstarfsins er óráðin. Það er ekki bara mín skoðun og ég tel ástæðu til að árétta það.[...]Ákveðnir menn hafa reynt að láta umræðuna hér á landi um þetta mikilvæga málefni snúast um allt annað en staðreyndir málsins, eða þeir hafa látið í ljós þá skoðun að það sé á einhvern hátt óviðeigandi að ræða þessa hluti. Það er nálgun sem menn geta ekki leyft sér að viðhafa í alþjóðasamstarfi.“
Fjallað var ítarlega um Schengen-samstarfið og ástæður þess í fréttaskýringu í Kjarnanum fyrr á þessu ári.