Eyþór Arnalds, sem stýrði nefnd sem gerði umdeilda skýrslu um þróun á starfsemi RÚV, segir að nefndin standi 100 prósent við niðurstöður skýrslunar. Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins segir hann: „Varðandi rangfærslur, þá höfum við ekki geta fundið neinar staðfestar villur í skýrslunni þannig að við stöndum við hana, 100 prósent[...]Enda var farið yfir þetta í fimm vikur af starfsmönnum RÚV áður en hún var birt.“
Helstu niðurstöður skýrslunnar voru þær að rekstur RÚV væri ósjálfbær, að endurskoða þyrfti þjónustuhlutverk fyrirtækisins í ljósi mikilla neyslubreytinga og að kostnaðarsamur dreifisamningur sem gerður hafi verið við Vodafone hefði verið mistök. Eyþór, og nefndin, hafa sætt mikilli gagnrýni vegna gerð skýrslunnar. Hún hefur verið sögð full af rangfærslum, ósanngjörnum samanburði, að tilgangur hennar hafi verið pólitískur og að markmiðið hafi verið að vinda ofan af RÚV.
Þarf að fá meira út úr hverjum manni
Eyþór segir í viðtalinu við Morgunblaðið að viðbrögðin hafi verið dálítið öfgakennd. „Við áttum að gera heildarúttekt á starfsemina en það voru kannski margar þjóðsögur í gangi. Við drógum fram staðreyndir byggðar á heimildum. Við vorum ekki að lýsa skoðun okkar eða að koma með tillögur en viðbrögðin voru dálítið öfgakennd. Menn skipast í hópa og stundum hættir mönnum til að vera með skoðanir án þess að hafa lesið skýrsluna.“
Að sögn Eyþórs fer of mikið fjármagn hjá RÚV í húsnæði, í dreifikerfið og aðra slíka þætti sem bitni á rekstrinum. „Ríkisendurskoðun hefur bent á að stofnunin eigi að vera samanburðarhæf í framleiðni og svo þarf að spara í útgjöldum. Þetta er það sem allir fjölmiðlar eru að glíma við í dag. Þeir þurfa að glíma við breytt umhverfi þar sem að samkeppni er við netið og fleira og þá þarf að reyna að fá meira út úr hverjum manni.“
Eyþór leggur áherslu á að nefndin hafi ekki birt tillögur, heldur hafi skýrslan einungis verið greining. „En menntamálaráðherra hefur sagt að þessi skýrsla sé góður grunnur. En því miður fór umræðan oft út og suður og menn fara í þessar títtnefndu skotgrafir[...]Ef menn vilja ekki ræða innihaldið þykir oft þægilegra að ræða manninn í staðinn. Staðreyndin er samt sú að þeir sem neita að horfast í augu við vandamálin, geta aldrei leyst þau. Það er vandi hjá öllum fjölmiðlum en ekki síst hjá ríkisfjölmiðlum. Ef að markmiðið er að efla innlenda dagskrágerð, standa vörð um tunguna og ná til ungs fólks þá verði menn að horfa á vandamálin. Ef menn ætla að ná árangri í að takast á við framtíðina þá verða þeir að viðurkenna það sem er að, þetta er eins og þegar maður fer til læknis, þá verður hann að fá að heyra vondu fréttirnar. Og það þýðir ekkert að skamma lækninn.“
Hann segir að ef Íslendingar ætla að setja inn marga milljarða króna á ári í ríkisrekstur á fjölmiðli, eins og gert er nú, þá sé hollt að endurskoða tilganginn. „Er öryggishlutverkið það sama eins og það var þegar langbylgjan var boðleiðin? Er verið að forgangsraða miðað við það framboð sem er í gangi? Það eru svona spurningar. En það er ekki mitt að ákveða það, það er annarra. En maður sér alveg að heimurinn er að breytast.“
Breytingar eru til góðs
Eyþór segist alveg hafa átt von á einhverju umtali í kjölfar þess að skýrslan kom út. Hann hafi sagt í gríni að hann þyrfti að panta ferð aðra leið til Ástralíu ef hann tæki þetta að sér. „Ég vissi alveg að þetta færi í ákveðnar skotgrafir. Og sérstaklega ef við segðum nú allan sannleikann, þá myndi þetta örugglega fara illa í marga. En auðvitað er fólk líka hrætt, það hafa margir hagsmuni af því að hafa RÚV eins og það er og fólk óttast oft breytingar. En eins og ég nefndi áðan er hægt að lækka kostnað án þess að skerða þjónustu verulega. Þegar eitt fer þá kemur annað. Ég held að tónlistarmenn og aðrir þurfi ekki að óttast breytingar. Ég held að breytingar séu yfirleitt til góðs. Þó að fólki þykir vænt um RÚV þá þarf það ekki að vera hrætt við framtíðina. Það væri gott að fá fleiri úttektir um fleiri stofnanir. Ríkisreksturinn er þess eðlis að hann á að þola mikla skoðun. Meira upp á yfirborðið. Opinbert hlutafélag á að vera með upplýsingar uppi á borði, og það opinberar. Annars á það ekki að heita ohf. Það þarf að horfast í augu við þau vandamál og þær áskoranir sem RÚV þarf að glíma við. Þetta er ekkert búið. Skýrslan er ekki vandinn, skýrslan er greining. Vandinn er ennþá og hann þarf að leysa.“