Alls greiddu 66,5 prósent atkvæðabærra manna atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í fyrravor. Það er dræmasta kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum til þessa. Ungt fólk kaus síður en gamallt fólk og konur fremur en karlar.
Þá vekur athygli að þátttaka á meðal kjósenda með erlent ríkisfang var mjög dræm, eða 21 prósent. Það þýðir að fjórir af hverjum fimm kjósendum með erlent ríkisfang kaus ekki. Þetta kemur fram í Hagtíðindum sem Hagstofa Íslands birti í morgun um sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014.
Alls voru 239.734 manns á kjörskrá, eða 73,2 prósent landsmanna. Af þeim sem voru á kjörskrá greiddu einungis 158.616 atkvæði.
Norrænir ríkisborgarar líklegri en aðrir til að kjósa
Það er ekki bara íslenskir ríkisborgarar sem geta kosið í sveitarstjórnarkosningum. Ríkisborgarar annars staðar af Norðurlöndum fengu kosningarrétt til sveitarstjórnar árið 1982 ef þeir höfðu átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt miðað við 1. desember næstan fyrir kjördag. Ríkisborgarar annarra landa gátu fyrst kosið við sveitarstjórnarkosningar 2002 ef þeir höfðu átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt miðað við 1. desember næstan fyrir kjördag.
Norrænu kjósendurnir eru mun líklegri en aðrir erlendir ríkisborgarar að nota atkvæði sín. Alls nýttu 57 prósent þeirra atkvæði sitt á meðan að einungis 17 prósent annarra erlendra ríkisborgara nýtti atkvæði sitt.
Erlendu ríkisborgararnir sem eru með kosningarétt eru nokkuð margir, eða 10.183 alls. Það er stór hluti allra erlendra ríkisborgara á Íslandi en þann 1. Janúar síðastlðinn voru þeir 24.294 talsins.
Annar hver á þrítugsaldri kaus ekki
Kosningaþátttakan var breytileg eftir aldri. Minnst var hún hjá aldurshópnum 20 til 24 ára, eða 45,4 prósent, og þar á eftir hjá Íslendingum á aldrinum 25 til 29 ára, eða 48,1 prósent. Rúmlega annar hver Íslendingur á aldrinum 20 til 29 ára nýtti því ekki kosningarétt sinn í sveitarstjórnarkosningunum. Athygli vekur að yngstu kjósendurnir, fólk á aldrinum 18 til 19 ára, kaus frekar en þau sem eru lítillega eldri. Þátttaka þar var 51,9 prósent.
Hæsta kosningaþátttakan var hjá aldurshópnum 65 til 69 ára, þar sem 82,8 prósent kosningabærra manna nýttu atkvæðisrétt sinn.
Þá var kjörsókn almennt meiri eftir því sem sveitafélögin voru fámennari.