Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, segir leiðréttingu sem Hagstofa Íslands sendi frá sér á föstudag um fólksflutninga frá Ísland sé „stórfurðuleg“ og skilur ekkert í því af hverju Hagstofan láti slíka frétt frá sér. Í frétt Hagstofunnar var sagt að engar markverðar breytingar hafi átt sér stað á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem fluttu til og frá landinu á mismunandi aldursbili árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014. Aukin fjöldi brottfluttra er ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár.
Gylfi segir tölur Hagstofunnar tala skýru máli. „Frá 1961 hafa brottfluttir með íslenskt ríkisfang verið að meðaltali 0,18% af fólksfjölda á hverju ári. Árið 2013 var hlutfallið komið niður í 0,01% en hefur síðan farið ört hækkandi. Í fyrra var það 0,23%, þ.e. meira en í meðalári og miðað við fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs verður hlutfallið 0,46% í ár - sem er tala sem áður hefur yfirleitt bara sést í efnahagskreppum. Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012.“
Ástæða fréttar Hagstofunnar var frétt Morgunblaðsins frá 11. nóvember þar sem sagði að alls hafi 3.210 íslenskir ríkisborgarar flutt frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til þess. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram heimkomna hefðu einungis fimm sinnum verið fleiri samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem nær til 1961. Það voru árin 1970, 1995, 2009, 2010 og 2011. Öll þau ár komu hins vegar í kjölfar kreppuára, þ.e. ára þar sem samdráttur ríkti í íslensku hagkerfi. Það er ekki raunin nú, þar sem hagvöxtur hefur verið hérlendis frá árinu 2011. Því er ekki um kreppuflutninga að ræða.
Þar var einnig rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að það virðist eitthvað djúpstæðara á ferðinni og að vísbendingar séu um að margt háskólafólk flytji úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, og Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, vísuðu báðir til fréttar Hagstofunnar í stöðuuppfærslum á Facebook á föstudag. Jóhannes Þór sagði að þá geti fólk „hætt að fabúlera um að ungt fólk sé að flýja ríkisstjórn og "Kafkaíska" spillingu á Íslandi miklu meira en áður. Hagstofan segir nefnilega að það sé barasta ekkert þannig.“
Sigurður Már sagði: „„Þá liggur það fyrir. Hagstofan bendir á að sé hlutfall íslenskra ríkisborgara sem flytja til og frá landinu á mismunandi aldursbili (af heildarfjölda aðfluttra og brottfluttra) árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014 fæst niðurstaðan að engar markverðar breytingar hafi átt sér stað árið 2015. Aukinn fjöldi brottfluttra er ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár. Þessi niðurstaða á við hvort sem horft er til búferlaflutninga hjá einstaklingum eða kjarnafjölskyldum. Ekki sést neinn munur sé horft til þeirra sem eru yngri en 40 annars vegar og eldri en 45 hins vegar.“