Átta þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram frumvarp um að virðisaukaskattur á dömubindi og túrtappa verði lækkaður úr 24 prósent í 11 prósent. Með breytingunni myndu vörurnar færast í lægra virðisaukaskattsþrepið. Flutningsmenn tillögunnar eru allt karlar. Þeir eru Róbert Marshall, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Helgi Hjörvar, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.
„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“
Dömubindi og túrtappar voru til umræðu á Alþingi Íslendinga í nóvember þegar Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort unnið væri að því að lækka virðisaukaskatt á þær vörur. Heiða Kristín spurði: „Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“.
Í ræðu sinni vakti Heiða Kristín athygli á því að virðisaukaskattur á smokka, bleiur og bleiufóður hafi verið lækkaður í aðgerðum fjármála- og efnahagsráðherra þar sem vörugjöld voru afnumin og virðisaukaskattur á ýmsar vörur lækkaður. Virðisaukaskattur á dömubindi og túrtapa hafi hins vegar verið látinn vera áfram 24 prósent.
Bjarni sagði í svari sínu að breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu hafi verið ætlaðar að létta barnafjölskyldum innkaup.
Bretar gefa túrtappaskattinn
George Osborne, fjármálaráðherra Breta, tilkynnti fyrir viku síðan að Bretland muni gefa allar skatttekjur vegna skatts sem lagður er á túrtappa og dömubindi til góðgerðarmála í þágu kvenna. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti í dag um framgang fjárhagsáætlunar ríkisstjórnar Íhaldsflokksins. Um er að ræða 15 milljónir punda á ári, eða um þrjá milljarða króna.
Samkvæmt Evrópureglum verður að leggja að minnsta kosti fimm prósent virðisaukaskatt á ýmsar hreinlætisvörur, meðal annars túrtappa og dömubindi, þar sem þær teljast vera lúxus-vörur. Alls hafa um þrjú hundruð þúsund manns í Bretlandi skrifað undir áskorun á stjórnvöld að afnema slíkan skatt.
Ríkisstjórn Verkamannaflokksins lækkaði skattinn úr 17,5 prósent í fimm prósent árið 2000 en gat ekki lækkað hann meira vegna reglna Evrópusambandsins. Osborne sagði að ríkisstjórnin ætlaði áfram sem áður að þrýsta á Evrópusambandið að afleggja þann fimm prósent skatt sem enn er á vörunum en þangað til að það bæri árangur myndi ríkið gefa allar tekjur sem skatturinn skilaði til góðgerðarmála í þágu kvenna.