Samkvæmt útgönguspá Danska sjónvarpsins sem birt var laust eftir klukkan átta, að dönskum tíma, og kjörstöðum hafði verið lokað vilja Danir vera óbundnir af samningi Evrópusambandsins um samstarf í dóms-og lögreglumálum og semja sérstaklega um þessa málaflokka við önnur ESB ríki.
Samkvæmt útgönguspá Danska sjónvarpsins merktu 53.3% kjósenda við nei á kjörseðlinum en 46.7% við já. Kjörsókn var meiri en fyrirfram var búist við.
Ef úrslit kosninganna verða þau að meirihluti kjósenda hafi sagt nei, verða Danir að gera sérsamkomulag um þá hluta ESB samningsins sem varða lögreglu-og dómsmál. Danir hafa haft slíkan samning frá árinu 1993 en vegna breytinga innan Evrópusambandsins fellur sá samningur nú úr gildi. Nei úrslitin myndu hafa það í för með sér Danir verða að semja uppá nýtt um áðurnefnda þætti, þar vegur samstarfið um Europol, Evrópulögregluna, þyngst. Öll ríki Evrópusambandsins yrðu að samþykkja slíkan sérsamning vegna Danmerkur, það tæki langan tíma og slíkt samþykki ekki sjálfgefið. Danski Þjóðarflokkurinn hefur verið í forystu þeirra flokka sem vilja segja nei. Helstu rök þeirra eru þau að með því að segja já séu Danir að afsala sér sjálfstæði í ýmsum málaflokkum og alltof margar ákvarðanir sem varði þjóðarhag verði teknar í Brussel. Nei sinnar telja að auðvelt yrði að semja um Europol samstarfið, það sé ekki áhyggjuefni.
Stjórnarflokkurinn Venstre,Sósíaldemókratar, Íhaldsflokkurinn, Radikale, og Sósíalíski Þjóðarflokkurinn styðja já leiðina, sem nefnd hefur verið valleið. Í henni felst að Danmörk undirgengst 22 atriði ESB samningsins en undanskilur 28 atriði. Þau kæmu til kasta danska þingsins varðandi breytingar. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra hefur sagt að veigamikil mál yrðu ekki til lykta leidd í þinginu, í slíkum tilvikum fengi þjóðin að kjósa. Já fylgjendur hafa í kosningabaráttunni hamrað á því að nauðsynlegt sé fyrir Dani að kjósa valleiðina, segja já. Annars sé hætta á að Danmörku verði einskonar aukhjól undir ESB vagninum, án áhrifa. Þar vegi lögreglusamstarfið þyngst en einnig mörg önnur atriði.
Í upphafi kosningabaráttunnar naut málstaður já sinna meira fylgis. Sá munur hefur smám saman farið minnkandi. Í síðustu könnunum sem gerðar voru fyrir kosningar hafði dæmið snúist við. Fylgjendur þess að segja nei voru komnir með smá forskot.
Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að Lars Lökke Rasmussen og já sinnar hafi lagt allt of mikla áherslu á hræðsluáróður í kosningabaráttunni. Slíkt hafi ekki farið vel í Dani.