Brunnur Vaxtasjóður slhf., fjögurra milljarða króna fagfjárfestasjóður í rekstri Landsbréfa og SA Framtaks GP, hefur keypt hlut í Ark Technology ehf. Samhliða kaupunum verður hlutafé aukið. Stofnendur ARK munu einnig taka þátt í hlutafjáraukningunni og verða áfram stærstu hluthafar, en þeir eru Jón Ágúst Þorsteinsson og fjölskylda hans. Fjárfestingafélag þeirra á einnig hlut í Marorku, en Jón Þorsteinn er stofnandi Marorku og stjórnarformaður þess.
Alls nemur fjármögnun félagsins nú 300 milljónum króna. Fjárfestingunni er ætlað að styðja við frekari vöruþróun, sölu- og markaðssetningu á vöru ARK.
Brunnur er í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Landsbankans og nokkurra fagfjárfesta. Sjóðurinn fjárfestir í íslenskum nýsköpunar- og vaxtafyrirtækjum sem selja eða stefna á að selja vörur eða þjónustu á erlenda markaði.
ARK Technology framleiðir og selur umhverfisstjórnunarhugbúnaðinn ARK Enterprise og aðstoðar fyrirtæki við innleiðingu hans. Hugbúnaðurinn mælir alla þætti mengunar í virðiskeðju fyrirtækis og styður við árangurstengda markmiðasetningu í umhverfismálum. Umhverfisframmistaða rekstrareininga er reiknuð á grundvelli þeirra gagna sem ARK Enterprise safnar úr virðiskeðjunni og geta stjórnendur nálgast lykilupplýsingar á notendaviðmóti þess.
Í fréttatilkynningu frá ARK segir: „ARK Enterprise styður því stjórnendur við að fylgja eftir umhverfismarkmiðum fyrirtækisins, hafa eftirlit með mengun, nýta orku og aðföng betur, draga úr rekstrarkostnaði, auðvelda úrgangsstjórnun og uppfylla reglugerðir um mengunarmál á einfaldan og skilvirkan hátt. ARK Enterprise nýtist einnig hafnaryfirvöldum, sveitarfélögum og þjóðríkjum til að sporna við sívaxandi mengun lands og sjávar.
Viðskiptavinir ARK leggja mikinn metnað í að bæta sífellt umhverfisframmistöðu sína og nota til þess ARK Enterprise. Einnig býr ARK að öflugum stuðningi Tækniþróunarsjóðs, Rannís og NORA."
Jón Ágúst, stofnandi og stjórnarformaður ARK Technology, segist vera ánægður með að Brunnur Vaxtasjóður hafi ákveðið að vinna með þeim að því að þróa fyrirtækið áfram. „Nauðsynlegt er að fyrirtæki í grænni tækni vaxi og dafni svo hægt sé að takast á við þau mikilvægu verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir sökum loftslagsbreytinga.“
Sigurður Arnljótsson, fjárfestingastjóri Brunns Vaxtasjóðs, er ekki síður ánægður með samstarfið. „Fyrirtæki á öllum sviðum leggja nú sífellt meiri áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif og hugbúnaður ARK Tehcnology nýtist sérstaklega vel við það mikilvæga verkefni. Jón Ágúst Þorsteinsson stjórnarformaður ARK býr að áratuga reynslu, þekkingu og samböndum í þessum iðnaði eftir að hafa byggt upp Marorku. Við hlökkum til að taka þátt í því með honum og ARK teyminu í að byggja upp öflugt hugbúnaðarfyrirtæki.“