Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hefur beitt sér fyrir því að Helgi Magnússon, varaformaður Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna, sitji ekki í stjórn fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn á í viðskiptum við. Ólafía segir að það sé ekki boðlegt að varaformaður stjórnar lífeyrissjóðsins „sitji í stjórnum þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn er að versla við. Alveg sama hvort að það sé í krafti eignar lífeyrissjóðsins eða í krafti einstakra eignarhluta aðila.“ Þetta kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 fyrr í dag.
Helgi Magnússon, sem lengi var stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna en er nú varaformaður stjórnar, er umsvifamikill fjárfestir. Hann situr í stjórn þriggja félaga sem lífeyrissjóðurinn á hlut í: N1, Marel og Símans. Alls situr Helgi í stjórn fimmtán félaga, en hann á umtalsverða eignarhluti í bæði N1 og Marel. Lífeyrissjóður Verzlunarmanna er stærsti eigandi N1 með um 14 prósent eignarhlut og á um níu prósent hlut í Marel. Þetta kom fram í skýrslu sem Talnakönnun vann nýverið að beiðni Samtaka sparifjáreigenda. Helgi er umsvifamesti stjórnarmaður landsins samkvæmt skýrslunni.
Ekki boðlegt
Eign Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna í N1 kom til tals í Vikulokunum fyrr í dag vegna skýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn, sem sýndi að neytendur eru að greiða um fjóra milljarða króna of mikið fyrir eldsneyti á ári vegna „verulega skertrar“ samkeppni og og mikillar álagningar olíufélaganna, meðal annars N1.
Helgi Seljan, þáttarstjórnandi Vikulokanna, spurði Ólafíu hvort það væri ekki sérstakt að fulltrúar lífeyrissjóðsins sitji í stjórn N1, í krafti lífeyrisgreiðslna fólksins í landinu, á sama tíma og þeir væru hugsanlega að svína á neytendum.
Ólafía benti á að VR skipi fjóra af átta stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði Verzlunarmanna. Hinir fjórir séu skipaðir af atvinnurekendum. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðinum hefðu ekki heimild til þess að ganga inn í daglegan rekstur fyrirtækja.
Helgi benti þá á að nafni hans Helgi Magnússon sæti í stjórn N1. Ólafía svaraði: „Það er aldeilis rétt hjá þér og mjög gott þhjá þér að vekja athygli á þessu vegna þess að Helgi situr ekki þarna í krafti stjórnar lífeyrissjóðsins heldur vegna þess að hann á sjálfur í N1. En það er mjög áhugaverð skýrsla sem var birt í október, þar sem var verið að taka saman stjórnarmenn í félögum á markaði, og það er mjög athyglisvert að Helgi Magnússon trónir þar á toppnum í fjölda þeirra stjórna sem hann situr í.“
Hún sagðist síðan hafa sent erindi um að það væri ekki boðlegt að varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna „sitji í stjórnum þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðurinn er að versla við. Alveg sama hvort að það sé í krafti eignar lífeyrissjóðsins eða í krafti einstakra eignarhluta aðila.“
Ólafía sagði að skýrsla Talnakönnunar sýndi að „þetta er ekki eðlilegt að þetta sé gert með þessum hætti og ég mun beita mér fyrir því að breyta þessu.“