Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segist telja að hvítflibbaglæpamenn sem nú sitji á Kvíabryggju eigi ekki að vera í fangelsi. „Ég veit ekki alveg af hverju við erum að loka þannig fólk inni. Verðum við hrædd við að ganga fram hjá þannig manneskju á Laugavegi? Er öryggi okkar ógnað? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvort við séum að gera rétt. Það er heilmikið mál að loka fólk inni. Slík vist þarf að vera til betrunar en ekki bara til þess að refsa og niðurlægja." Þetta kemur fram í viðtali við Björt í Fréttablaðinu í dag.
Þar ræðir hún m.a. um fangelsismál og segist vilja að Íslendingar leggi af refsistefnu og vinni í átt að betrun. Ef við lokum fólk inni á það að vera af því að það er hættulegt samfélaginu og við viljum ekki mæta því á götu því við erum ekki örugg. Ég tel að það séu fangar sem eiga ekki heima í fangelsi sem sitja þar núna.“
Þeir hvítflibbaglæpamenn sem sitja á Kvíabryggju í dag eru m.a. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var einn stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun. Þeir hlutu allir þunga dóma í Al Thani-málinu svokallaða í febrúar. Hreiðar Már, Magnús og Sigurður hafa auk þess hlotið fleiri dóma í héraði. Þá stendur nú yfir aðalmeðferð í svokölluðu CLN-máli þar sem þremenningarnir eru allir ákærðir. Saksóknari þess máls hefur farið fram á refsiauka yfir mönnunum, sem þýðir að hann vill að þeir verði samtals dæmdir til níu ára fangelsisvistar.
Sektir, starfsbann eða löng samfélagsþjónusta
Björt segir ljóst að ef fólk er hættulegt samferðarmönnum sínum séu engin önnur úrræði en að loka það inni. Þá sé líka eins gott að viðkomandi skili sér sem betri manneskja út í samfélagið á ný. „Með aðra sem ættu ekki að vera hættulegir manneskjum úti á götu spyr ég, af hverju að loka þá inni, eins og með þessa bankamenn? Af hverju ekki himinháar sektir? Af hverju bönnum við þeim ekki að taka þátt í fjármálakerfinu? Skikkum þá í tíu ára samfélagsþjónustu? Ég er bara að nefna eitthvað. Hvað vinnst með því að loka þessa menn inni? Ég er bara að henda þessu út. Mig langar að fá svar við því. Ef svarið er, þetta er bara svo vont fólk að það verður að loka það inni – það er búið að stela öllum peningunum mínum, þá veit ég ekki hvort við séum nokkuð betri."
Björt viðurkennir að hún verði örugglega „tekin af lífi“ fyrir þessi ummæli, en hún vill hins vegar fá umræðu um þessi mál. „Sem betur fer þekki ég engan bankamann sem hefur verið dæmdur, þannig að ég get leyft mér að segja þetta. Þetta er sett fram í spurnarformi og auðvitað þarf að ræða þetta. Fyrst verða allir rosalega reiðir og svo er spurning um hvort það sé eitthvað sannleikskorn í þessu. En spurningin er bara: er þetta í óbreyttri mynd að skila árangri? Getum við gert betur? Það verður að vera leyfilegt að spyrja spurninga."
Þingmaðurinn segir að það sé krísa í fangelsismálum þjóðarinnar og endurkoma ungra karlmanna sem hafa lent á glapstigum aftur í fangelsin sé sérstakt vandræðamál. Því þurfi að vinna með fólki til að það lendi ekki í sama farinu, í stað þess að loka það inni í fangelsum. Björt er ánægð með nýja fangelsið á Hólmsheiði, en segir að það sé mjög dýrt. „Ef helmingurinn af þessum peningum myndi fara í sálfræðinga, geðlækna – eitthvað. Hluti sem virka betur og lengur. Ég held við værum að sjá betri niðurstöður. Fangelsið á Hólmsheiði er bara steinsteypa.“