Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþing,Mitch McConnell, segir að loftlagssamningur Sameinuðu þjóðanna verði rifinn í tætlur eftir rúmt ár, ef flokkur hans vinnur sigur í forsetakosningunum sem fara fram í nóvember á næsta ári. McConnell segir að áður en alþjóðlegir félagar Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, taki tappann úr kampavínsflöskunni ættu þeir að muna að samningurinn byggi á markmiðum sem ekki sé hægt að ná og á orkustefnu forsetans sem sé líklega ólögleg. Frá þessu er greint á vefnum Newsmax.
Alls sammældust 196 ríki um nýja loftlagssamninginn í París um helgina og Obama sagði að hann gæti varðað viðsnúning fyrir heimsbyggðina í þessum málum. Raunar var viðbúið að McConnell og ýmsir aðrir repúblikanar myndu bregðast hart við. Hann hefur gagnrýnt hina hreinu orkustefnu (e. The Clean Power Plan) Obama alveg frá því að hún var lögð fram og sagt hana vera árás á bandarísku millistéttina sem muni leiða til þess að enn fleiri störf flytjist frá Bandaríkjunum, dragi úr samkeppnishæfni bandarísks viðskiptalífs og hækki raforkuverð. McConnell segir orkustefnuna ólöglega og að samkomulagið sem var samþykkt í París, og byggir á þeirri orkustefnu, verði því rifið í tætlur ef repúblikanar taki við.
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump, sem leiðir kapphlaupið að útnefningu Repúblikanaflokksins sem stendur samkvæmt könnunum, hafði sett fram mikla gagnrýni á mögulegt samkomulag áður en að fundurinn í París hófst. Trump sagði að ef hann hefði verið forseti þá hefði hann ekki mætt á fundinn vegna þess að það væru miklu mikilvægari málefni til að fást við en þau sem fjallað væri um þar.
Fleiri þingmenn repúblikana tóku sig saman um helgina og birtu bréf til Obama þar sem samkomulagið var gagnrýnt. Þeir hafa áhyggjur af því að það hafi neikvæð hagræn áhrif innan Bandaríkjanna og á hagsmuni landsins erlendis. Ýmsir sérfræðingar hafa sagt að samkomulagið marki endalok aldar jarðefniseldsneytis og að nú muni öll ríki sem sammældust um samninginn taka alvöru skref í átt að nýjum orkugjöfum. Bandaríkin framleiða mikið af jarðefnaeldsneyti og eiga í miklum og flóknum alþjóðlegum samskiptum við mörg ríki sem eru stórframleiðendur slíks, meðal annars í Mið-austurlöndum.