„Það þarf að bjarga Íslandi. Við erum föst í fari átakastjórnmála sem valda stöðnun og hnignun. Umræðan er ónýt og leiðir til lélegra ákvarðana." Þetta segir Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun. Hann kallar eftir sameiginlegu framboði umbótaafla í næstu kosningum sem yrði leitt af Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna.
Róbert segir að það þurfi að endurhugsa og endurskipuleggja. Þeir sem aðhyllist umbætur og alvöru aðgerðir á sviði umhverfis, jafnréttis, mennta- og heilbrigðismála þurfi að skipa sér í sveit saman og búa til aðgerðaráætlun fyrir næstu kjörtímabili. „Stilla sameiginlega uppá lista í öllum kjördæmum og stilla upp ríkisstjórn þar sem hæfileikar, bakgrunnur og verkefni ráða mannvalinu. Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skipaða utanþingsráðherrum sem við kynnum fyrir kosningar og yrði leidd af Katrínu Jakobsdóttur. Verkefnin framundan eru risavaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Íslandi."