Reykjanesbær og Thorsil gerðu í dag með sér samkomulag um að fresta greiðslu Thorsil á gatnargerðargjöldum sem fyrirtækið á að greiða sveitafélaginu til 15. mars 2016. Upphaflega áttu gjöldin að greiðast 30. september en Thorsil fékk þá frest til 15. desember, eða í dag. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
DV sagði frá því í október að Reykjaneshöfn hefði gefið Thorsil, sem ætlar sér að byggja kísilmálmverksmiðju í Helguvík, greiðslufrest á gatnagerðargjöldum vegna lóðarinnar undir verksmiðjuna. Gjöldin áttu að greiðast 30. september s en gjalddaganum var frestað til 15. desember. Honum hefur nú verið frestað aftur.
Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, vildi ekki upplýsa DV um hversu háa upphæð er um að ræða. Ljóst er að litlar tekjur Reykjaneshafnar, sem hún þarf til að geta staðið við greiðslur af lánum, aukast ekki á meðan að stærsti viðskiptavinur hennar greiðir ekki umsamin gjöld á réttum tíma.
Bygging verksmiðju Thorsil er mjög umdeild í Reykjanesbæ og í ágúst samþykkti bæjarráð sveitarfélagsins að efna til íbúakosningu í nóvember vegna hennar. Samhliða var hins vegar samþykkt að íbúakosningin yrði bindandi og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði opinberlega að niðurstaða hennar skipti í raun engu máli.
Niðurstaða kosningarinnar lá fyrir í byrjun desember. Kosningaþátttaka var mjög dræm, en einungis 8,7 prósent þeirra sem máttu greiða atkvæði gerðu það. Það þýðir að einungis þriðjungur þeirra um 2.800 manna sem skrifuðu undir áskorun til bæjaryfirvalda um að halda kosninguna kaus. Alls voru 471 íbúar sem tóku þátt hlynntir breytingu á deiliskipulagi í Helguvík tengt uppbyggingu verksmiðjunnar en 451 á móti. Tólf skiluðu auðu.
Reykjanesbær glímir við mikinn skuldavanda. Sveitarfélagið er það skuldsettasta á landinu. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög.
Skuldavandinn er að stóru leyti tilkominn vegna fjárfestinga í hafnarframkvæmdum við Helguvík sem sveitarfélagið er í ábyrgð fyrir. Í tilkynningu sem Reykjanesbær sendi til Kauphallar Íslands í október sagði að sveitarfélagið væri í viðræðum við helstu kröfuhafa sína um fjárhagslega endurskipulagningu. Eigi þær viðræður að skila árangri sé „nauðsynlegt að samkomulag náist við helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda". Ef samningar um niðurfellingu skulda nást ekki gæti komið til greiðslufalls á skuldum sveitarfélagsins.
RÚV greindi frá því fyrr í dag að Reykjanesbær hefði ekki enn náð samkomulagi við kröfuhafa sína. Í frétt RÚV segir að enn sé langt í land.