Már Guðmundsson seðlabankastjóri gefur lítið fyrir gagnrýni um að stjórnvöld hafi samið af sér í samningum sínum við kröfuhafa föllnu bankanna, sem hefur meðal annars komið frá Kára Stefánssyni og InDefence-hópnum.
Í viðtali við DV í dag segir Már að hann muni ekki eftir neinum samningi þar sem einhverjir hafi ekki stigið fram og gagnrýnt hann. „Við höfðum aldrei neinn grundvöll til að ráðast í allsherjar upptöku á eignum slitabúanna. Ef við hefðum farið að nálgast losun hafta með þeim hætti þá hefði það væntanlega skemmt fyrir okkur varðandi lánshæfismat og orðspor íslenska ríkisins. En við gátum hins vegar gengið eins langt í aðgerðum okkar og nauðsynlegt var svo lengi sem þær voru grundvallaðar á tillögum sem fólu í sér lausn á greiðslujafnaðarvandanum sem uppgjör slitabúanna skapaði. Á þessu hömruðum við í allri vinnunni og mótaðilar okkar gátu aldrei þrætt fyrir þessi rök. En ef við hefðum farið að ganga eitthvað lengra en þá þá hefðu þeir getað gert það.“
Skriður komst á með erlendu ráðgjöfunum
Í viðtalinu ræðir Már ítarlega haftalosunarferlið og segir að skriður hafi komist á það þegar erlendu ráðgjafarnir komu að málinu sumarið 2014 og menn fóru að vinna með raunhæfar tillögur. „Ég hafði alltaf gert mér grein fyrir því að þetta yrði að lokum að vera málamiðlun og ég lagði mikla áherslu á að það væri mikilvægt að allir yrðu á sama báti þegar niðurstaða kæmi. Ég var mjög ánægður með að það hafi orðið reyndin. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ánægjulegt að niðurstaðan sem náðist var svona nálægt því sem ég hafði almennt talið að þyrfti.[...]Ég er mjög ánægður með hvernig þetta leystist og ég held að sá framkvæmdahópur um losun hafta sem skipaður var í janúar hafi skipt sköpun fyrir þessa vinnu enda vann hópurinn vel og var mjög lausnamiðaður. Erlendur ráðgjafarnir hjálpuðu einnig mikið til auk þess sem það var unnin heilmikil vinna í Seðlabankanum og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það voru allir að róa í sömu átt og það skilaði sér í þessari góðu niðurstöðu.“
Mögulegt hægt að losa höft í einu skrefi á næsta ári
Már segir við DV að eitt af þeim meginviðmiðum sem sett hefðu verið í vinnunni við losun hafta hefði verið að leysa vandann eins fljótt og mögulegt var með eins lítilli lagaáhættu og áhættu fyrir lánshæfismat og orðspor íslenska ríkisins og hægt var.
Auk þess var reynt eftir fremsta megni að finna lausn sem væri í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. „Þá var það lykilatriði að stjórnvöld höfðu lofað þjóðinni að uppgjör gömlu bankanna myndi ekki fela í sér lækkun á gengi krónunnar. Þegar okkur hafði tekist að komast á þennan stað þá höfðun við engan grundvöll til að ganga lengra. Þeir sem tala fyrir því að þessi slitabú eigi að borga skaðabætur fyrir það tjón sem bankarnir eiga að hafa valdið Íslendingum verða þá að leita til löggjafans. Það yrði þá gert á allt öðrum grundvelli en að leysa höftin. Það sem eftir situr er að okkur tókst að koma með lausn sem jafnframt felur í sér hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs og almenna viðurkenningu á áætluninni um losun hafta á alþjóðlegum vettvangi. Það verður að teljast góð niðurstaða.“
Hann segir að stefnt sé að því að halda uppboð á 250 milljarða króna aflandskrónueignum, sem að mestu eru í eigu nokkurra sjóða, á fyrsta ársfjórðungi næsta árs . Í kjölfarið muni vera hægt að losa höft á heimili og fyrirtæki. „Ég útiloka því ekki að það verði hægt að gera það mjög hratt og jafnvel í einu skrefi einhvern tíma á næsta ári.“
Segir Davíð alveg mega gagnrýna sig
Már hefur oft verið harðlega gagnrýndur fyrir störf sín og sú gagnrýni hefur oftar en ekki komið frá aðilum sem tengjast Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum. Hann segir þó að samstarf hans við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi gengið vel að hans viti. „Ég held að það hafi að sumu leyti verið lykillinn að því af hverju svona vel tokst til við losun fjármagnshaftanna. Ég á ágætis samtöl við bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um hin ýmsu mál en það breytir því ekki að það þarf að vera skapandi spenna í slíku samstarfi. Seðlabankinn kemur úr sinni átt og hann er ekki að sinna hlutverki sínu nema hann sé sjálfstæður og skýr í sínum hugsunum en geti samt engu að síður gert málamiðlanir þegar á því þarf að halda.“
Aðspurður um harða gagnrýni sem sett hefur verið fram á Má í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, þar sem fyrrum seðlabankastjórinn Davíð Oddsson heldur um penna, segist Már ekkert hafa um hana að segja. Davíð megi gagnrýna hann eins og hver annar. Hann segir þó að sumum kollegum hans erlendis finnist þessi staða dálítið skrýtin.