Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kemur í veg fyrir að frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um að útvarpsgjald verði óbreytt á næsta ári, verði afgreitt úr ríkisstjórn. Samkvæmt frumvarpinu átti útvarpsgjaldið að vera áfram 17.800 krónur en ekki lækka í 16.400 krónur, líkt og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Í blaðinu segir að frumvarpið sé mjög umdeilt í báðum stjórnarflokkunum. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, eru til að mynda bæði eindregið þeirrar skoðunar að útvarpsgjaldið eigi að lækka. Í Morgunblaðinu er haft eftir ónafngreindum þingmanni Sjálfstæðisflokksins að hann teldi að meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokks væri andvígur frumvarpinu og sömu sögu sagði ónafngreindur þingmaður Framsóknarflokksins. Fjórir stjórnarandstöðuflokkanna lögðu hins vegar í gær fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að útvarpsgjaldið yrði óbreytt á næsta ári.
Tekjur RÚV munu dragast saman um hátt í fimm hundruð milljónir króna á næsta ári ef útvarpsgjaldið verður lækkað. Það myndi þýða stórtækan niðurskurð á dagskrá og þjónustu, með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks. Stjórnendur RÚV hafa sagt að þeir muni ekki geta uppfyllt þjónustusamning sinn við ríkið ef af verður.