Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett lögbann á upptöku og ólínulega miðlun Vodafone á sjónvarpsefni SkjásEins, sem er í eigu samkeppnisaðilans Símans. Í fréttatilkynningu frá Símanum vegna þessa segir að Vodafone brjóti gegn dreifingarsamningi við Símann og miðli sjónvarpsefni SkjásEins með óleyfilegum hætti til viðskiptavina sinna.
Þar segir einnig að ágreiningur félaganna vegna breyttrar þjónustu SkjásEins hefur verið til skoðunar hjá stjórnvöldum; hjá Samkeppniseftirlitinu, Póst- og fjarskiptastofnun og fjölmiðlanefnd. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Simans, segir að innan eftirlitsstofnana hafi meðal annars verið tekist á um hvort svokölluð Tímavél Vodafone og Frelsi heyrðu til línulegrar eða ólínulegrar dagskrár. Síminn haldi því fram að sú þjónusta sé ólínuleg og fjölmiðlanefnd hafi tekið undir það.„Við hjá Símanum erum ákaflega stolt af því að SkjárEinn sé í opinni línulegri dagskrá á nær öllum heimilum landsins þeim að kostnaðarlausu. Þær fyrirætlanir ganga aðeins upp sjái auglýsendur hag í að auglýsa á stöðinni og standa þannig undir rekstri hennar.“