Tæplega tveir af hverjum þremur kjósendum, eða 62,8 prósent þeirra, þekkja ekki stjórnmálahreyfinguna Viðreisn, sem hyggur á framboð til Alþingis í kosningunum 2017. Alls sögðust 4,2 prósent aðspurðra það koma sterklega til greina að kjósa flokkinn en 6,9 prósent sögðu það koma til greina. 26 prósent sögðu það ekki koma til greina. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup hefur gert fyrir Viðskiptablaðið.
Þar segir einnig að staða Viðreisnar sé sterkust á meðal fylgismanna Samfylkingarinnar, þar sem 20 prósent aðspurðra innan þess hóps sagði það annað kort koma sterklega til greina eða til greina að kjósa framboðið. Hjá fylgismönnum Sjálfstæðisflokksins var það hlutfall níu prósent en stuðningur við Viðreisn mælist vart hjá stuðningsmönnum Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
Viðreisnarhópurinn skilgreinir sig sem nýtt frjálslynt, alþjóðasinnað stjórnmálaafl, sem staðsetur sig hægra megin við miðju. Frá því snemma á síðasta ári hefur hópur fólks unnið að því að undirbúa farveginn fyrir framboð flokksins. Hópurinn er mjög hlynntur aðild að Evrópusambandinu og margir Evrópusinnaðir fyrrum sjálfstæðismenn hafa verið áberandi í honum. Þeirra á meðal eru Benedikt Jóhannesson, Helgi Magnússon, Þorsteinn Pálsson, Þórður Magnússon, Vilhjálmur Egilsson, Sveinn Andri Sveinsson og Jórunn Frímannsdóttir svo fáeinir séu nefndir. Þá hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekað verið nefnd sem mögulegur forystumaður í hinu nýja framboði.
Í ítalegri fréttaskýringu um hópinn, sem síðan hefur kennt sig við Viðreisn, í Kjarnanum í apríl í fyrra kom fram að hann ætli sér ekki að verða eins stefnumáls vettvangur, þrátt fyrir að það sé að myndast í kringum andstöðu við slit á viðræðum við Evrópusambandið. Þvert á móti verður lögð áhersla á að bjóða upp á stóran stefnumálapakka og breiða fylkingu fólks af fólki af báðum kynjum úr ýmsum stéttum þegar af framboði verður.